Innlent

Sóttvarnir veitingahúsa í ágætum málum en fjöldi tilkynninga um partýhávaða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla að störfum í miðborg Reykjavík. Myndin er úr safni.
Lögregla að störfum í miðborg Reykjavík. Myndin er úr safni. Vísir/Kolbeinn Tumi

Starfsmenn veitingahúsa og skemmtistaða sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heimsótti í miðborg Reykjavíkur í dag og í gær voru almennt meðvitaðir um sóttvarnaraðgerðir á stöðunum. Mikill fjöldi kvartana vegna partýhávaða barst lögreglu hins vegar í nótt.

Í dagbók lögreglu segir að engar athugasemdir hafi verið gerðar á föstudaginn í heimsóknum á tíu veitingahús eða skemmtistaði í miðborginni.

Í heild sinni hafi starfsmenn allra staða virst vera meðvitaðir um sóttvarnaraðgerðir, þ.e. að passa upp á 2 metra á milli gesta sem og buðu flestir staðir upp á spritt. Ekki voru gerðar neinar athugasemdir þetta kvöld.

Í heimsóknum á fjórtán staði í gær þurfti þó að benda starfsmönnum nokkurra staða að úrbóta væri þörf þar sem of stutt bil væri á milli hópa, en alls voru fjórtán staðir heimsóttir.

Í dagbók lögreglu segir þó að eins og kvöldið áður hafi starfsmennirnir sem rætt var við virst vera meðvitaðir um sóttvarnaraðgerðir og opnir fyrir ábendinum lögreglumanna.

Eitthvað virðist þó hafa verið um að fólk skemmti sér heima við í gær því á fimm tíma millibili frá miðnætti til fimm í morgun bárust lögreglu tuttugu tilkynningar vegna samkvæmis/partýháva þar sem lögregla var send á vettvang.

Eins kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í mánuðinum hefur lögregla farið í nærri þrefalt fleiri hávaðaútköll í sumar en fyrir þremur árum. Veitingahús og skemmtistaðir mega ekki hafa opið lengur en til ellefu og telur yfirlögregluþjónn ljóst að partý hafi í auknum mæli færst í heimahús þegar skemmtistaðir loki snemma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×