Erlent

Hryðju­verka­maðurinn í Christchurch hlaut lífs­tíðar­dóm

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Cameron Mander dómari gaf sér góðan tíma við dómsuppkvaðninguna í morgun.
Cameron Mander dómari gaf sér góðan tíma við dómsuppkvaðninguna í morgun. Getty/John Kirk-Anderson

Brenton Tarrant, sem játaði að hafa myrt 51 í tveimur skotárásum í Christchurch á Nýja-Sjálandi í mars í fyrra, var dæmdur í lífstíðarfangelsi í morgun, án reynslulausnar. Þetta er lengsti fangelsisdómur sem kveðinn hefur verið upp á Nýja-Sjálandi en þar er ekki heimild fyrir dauðarefsingum.

Að auki játaði Tarrant á sig fjörutíu morðtilraunir og hryðjuverk. Voðaverkin, sem send voru út í beinni útsendingu á Facebook, voru fordæmd um allan heim. Við aðalmeðferð málsins kom fram að Tarrant hafi ætlað sér að brenna moskurnar og valda eins miklu manntjóni og mögulegt væri. Þar að auki hafi hann ætlað sér að ráðast á þriðju moskuna.

Fjölmiðlum var meinað að greina frá aðalmeðferðinni í dómsal til að tryggja að nýnasistaáróður Tarrant rataði ekki frekar fyrir almenningssjónir. Fréttamönnum voru auk þess settar hömlur á hverju mátti greina frá og hverju ekki.

Dómarinn sagði við dómsuppkvaðninguna í morgun að morðin hefðu verið hrottafenginn, Tarrant væri kaldlyndur og nær ómennskur. Dómarinn varði um klukkustund í að minna þann dæmda á öll þau sem hann myrti en næstum 90 aðstandendur þeirra höfðu áður borið vitni. Tarrant sat þögull meðan dómurinn yfir honum var kveðinn upp, en verjandi hans las upp yfirlýsingu um að hann myndi sætta sig við dóminn án athugasemda.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra landsins, sagði að hennar von væri að nafn mannsins myndi gleymast um aldur og ævi, en vottaði um leið samúð fórnarlömbum hans og eftirlifendum sem þurfa að lifa með afleiðingum gjörða hans.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×