Erlent

800 þúsund dánir vegna Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn við skimun á Indlandi.
Heilbrigðisstarfsmenn við skimun á Indlandi. AP/Manish Swarup

Tala látinna vegna Covid-19 mun fara yfir 800 þúsund í dag, samkvæmt talningu Johns Hopkins háskólans í Bandaríkjunum sem byggir á opinberum tölum. Flestir hafa dáið í Bandaríkjunum, 175.409, Brasilíu, 113.358, og í Mexíkó, 59.610, þegar þetta er skrifað. Alls hafa tæplega 23 milljónir manna smitast, svo vitað sé.

Útlit er þó fyrir að mun fleiri hafi dáið en opinbert er. AP fréttaveitan segir til að mynda að raunverulegur fjöldi látinna í Bandaríkjunum gæti verið um 215 þúsund eða 40 þúsund hærri en opinberar tölur segja til um. Þá tölu fundu blaðamenn fréttaveitunnar með því að bera saman fjölda þeirra sem dóu á fyrstu sjö mánuðum ársins, við fjölda látinna á sama tímabili undanfarin ár.

Að meðaltali hafa um 1,7 milljón manna dáið frá janúar til loka júlí í Bandaríkjunum. Þetta árið er þessi tala um 1,9 milljón.

Þá eru þeldökkir helmingur af þeim sem hafa dáið í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að þeldökkir séu um 40 prósent íbúa Bandaríkjanna virðist þau vera um 52 prósent þeirra sem dáið hafa. Miklar vísbendingar eru um að faraldur nýju kórónuveirunnar hafi komið verr niður á þeim.

Það hefur verið rakið til verra aðgengis að heilbrigðisþjónustu og verri efnahagsstöðu þeldökkra. Er þar átt við Bandaríkjamenn af afrískum uppruna, af rómönskum ættum, frá Asíu og innfædda.

Útbreiðsla kórónuveirunnar er í uppsveiflu víða í heiminum. Fjöldi þeirra sem staðfest er að hafa smitast á Indlandi fór í morgun yfir þrjár milljónir eftir að þeim fjölgaði um rúmlega 69 þúsund á milli daga. Fjölgunin hefur aldrei verið hærri á milli daga í landinu.

Heilbrigðisráðuneyti Indlands segir að miklu leyti megi rekja aukninguna til aukningar í skimun og að þeim sem jafna sig af Covid-19 fari einnig fjölgandi.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, fram­kvæmda­stjóri Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar (WHO), sagði í gær að hann vonaðist til þess að kórónuveirufaraldrinum verði lokið innan tveggja ára.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×