Erlent

Biður hæsta­rétt að leyfa sér að blokka að vild á Twitter

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump vill fá að loka á fólk á Twitter.
Trump vill fá að loka á fólk á Twitter. AP/Patrick Semansky

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill fá grænt ljós frá hæstarétti Bandaríkjanna til þess að loka á, eða blokka, andstæðinga sína og andófsmenn á samfélagsmiðlinum Twitter en forsetinn er afar virkur á miðlinum og tístir oft svo tekið er eftir.

Blokki Twitter-notandi aðgang annars notanda getur hvorugur skoðað aðgang hins eða séð það sem birtist þar.

Alríkisáfrýjunardómstóll í New York komst á síðasta ári að þeirri niðurstöðu að Trump væri óheimilt að loka á fólk á persónulegum Twitter-reikningi sínum. Niðurstaðan var meðal annars rökstudd með því að benda á að forsetinn birti þar daglega hugleiðingar og tilkynningar sem í eðli sínu yrðu að teljast opinberar.

Þá var talið að í hvert skipti sem hann lokaði á einhvern sem svaraði tístum hans væri hann að brjóta á fyrsta viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem kveður meðal annars á um að ekki megi setja lög sem skerða tjáningarfrelsi borgaranna.

Trump hefur haldið reikningum úti lengur en hann hefur verið forseti. Hann notar þó persónulegan reikning sinn, @realdonaldtrump, í mun meira mæli en opinberan aðgang sinn, @POTUS.

Í rökstuðningi með áfrýjun forsetans til hæstaréttar segir meðal annars að aðgangurinn sé persónuleg eign forsetans. Það að banna honum að loka á reikninga eftir eigin höfði væri því svipað því að banna kjörnum fulltrúum að fjarlægja skilti til stuðnings mótframbjóðenda þeirra úr sínum eigin görðum.

„Möguleiki forsetans á að nota möguleika Twitter-aðgangs síns, þar á meðal til að loka á fólk, er óháður embætti forsetans.“

Samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar er ekki talið líklegt að málið verði tekið fyrir hjá Hæstarétti fyrir forsetakosningarnar í nóvember, þegar Trump freistar þess að verða endurkjörinn í embætti forseta. Þá er heldur ekki ljóst hvort málið verði tekið til efnislegrar meðferðar eða því vísað frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.