Innlent

Þarf ekki að greiða leigu vegna umdeilds gistiskýlis sem komst ekki á koppinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Útlendingastofnun var óheimilt að opna gistiskýli fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Bíldshöfða 18.
Útlendingastofnun var óheimilt að opna gistiskýli fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Bíldshöfða 18. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Riverside ehf. og Útlendingastofnun af kröfum hvors annars í dómsmáli í tengslum við leigu á umdeildu gistiskýli fyrir hælisleitendur sem fyrirhugað var við Bíldshöfða. Stofnunin þarf ekki að greiða leigu sem Riverside ehf. taldi sig eiga inni auk þess sem að Riverside ehf. þarf ekki að endurgreiða leigugreiðslur sem það hafði þegar fengið frá stofnuninni.

Forsaga málsins er sú að Útlendingastofnun tók til leigu stóran hluta efri hæðar Bíldshöfða 18 og hafði í hyggju að hýsa þar allt að 70 hælisleitendur.

Eigendur fjórtán fyrirtækja í húsnæðinu lögðust strax gegn áformum Útlendingastofnunar og töldu að reksturinn myndi hafa í för með sér ónæði, röskun og óþægindi. Upphaflega synjaði Reykjavíkurborg Útlendingastofnun um breytingu á nýtingu húsnæðisins en Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti undanþágu frá ákvæðum reglugerðar.

Lögbann var hins vegar lagt á breytinguna á skipulaginu og í maí árið 2018 komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að Útlendingastofnun væri óheimilt að opna gistiskýlið. Ekkert varð því af opnun þess.

Riverside vildi leigu og Útlendingastofnun vildi fá endurgreiðslu

Síðar höfðaði Riverside ehf., sem leigði Útlendingastofnun umrætt rými, mál á hendur stofnuninni og krafðist félagið þess að fá greidda leigu fyrir umrætt rými fyrir ákveðið tímabil, sem Útlendingastofnun hafði neitað að greiða.

Útlendingastofnun höfðaði gagnsök gegn Riverside í málinu og krafðist þess að fá endurgreidda þriggja mánaða leigu sem stofnunin hafði þegar greidd Riverside ehf., þar sem stofnunin hafi ekki getað notað húsnæðið.

Dómur í málinu var kveðinn upp í morgun og sýknaði héraðsdómur Riverside ehf. og Útlendingastofnun af kröfum hvors annars í málinu. Riverside ehf. þarf þó að greiða Útlendingastofnun 1,5 milljónir króna í útlagðan kostnað sem ekki var deilt um í málinu.

Atli Már Ingólfsson, lögmaður Riverside ehf., segir í samtali við Vísi að málinu verði áfrýjað til Landsréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×