Fótbolti

Sennilega okkar slakasti landsleikur

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Þór Hauksson var alls ekki ánægður eftir leikinn í dag þrátt fyrir sigur.
Jón Þór Hauksson var alls ekki ánægður eftir leikinn í dag þrátt fyrir sigur. vísir/vilhelm

Þrátt fyrir 1-0 sigur gegn Norður-Írlandi á Spáni í dag segir Jón Þór Hauksson leikinn sennilega þann slakasta hjá kvennalandsliðinu í fótbolta frá því að hann tók við stjórn liðsins.

Þetta var fyrsti leikur Íslands af þremur á Pinatar Cup, og þrettándi leikur Íslands undir stjórn Jóns Þórs sem tók við liðinu undir lok árs 2018.

„Það er auðvitað gott að vinna og byrja landsliðsárið á sigri. Það er gott að halda hreinu og venja sig á að vinna fótboltaleiki. En þetta er ekki okkar besti landsleikur. Hann var mjög slakur og sennilega okkar slakasti. En það er tæpt hálft ár síðan að við spiluðum síðast svo það er langt á milli leikja núna, og við vissum það svo sem að það tæki okkur tíma að koma okkur í gang aftur,“ sagði Jón Þór í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum KSÍ.

„Heilt yfir er leikur okkar í dag vonbrigði og mér fannst við láta boltann ganga allt of hægt, við náðum aldrei neinum takti í spilið okkar og sendingar voru slakar og þar af leiðandi móttökur erfiðar. Í einföldum stöðum erum við að láta boltann ganga illa á milli okkar. Svo það er heilmargt sem við þurfum að laga og við þurfum að laga það fljótt, og sem betur fer fáum við tækifæri til þess á laugardaginn,“ sagði Jón Þór.

Ísland mætir Skotlandi á laugardaginn og leikur svo við Úkraínu í lokaleik sínum á mótinu næsta þriðjudag. Báðir leikirnir hefjast kl. 14 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

Sextán ára stelpa í marki íslenska landsliðsins í dag

Cecilía Rán Rúnarsdóttir fær sitt fyrsta tækifæri með A-landsliði kvenna í dag en landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson hefur valið hana í byrjunarlið sitt á móti Norður Írlandi í opnunarleik Pinatar æfingamótsins á Spáni.

Cecilía bætir met Þóru í dag

Cecilía Rán Rúnarsdóttir verður í dag yngsti markvörður A-landsliðanna frá upphafi þegar hún byrjar leikinn á móti Norður Írum á æfingamótinu á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×