Fótbolti

Dagný tryggði Íslandi sigur og Cecilía hélt hreinu í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir, lengst til vinstri, var einbeitt fyrir leik og skoraði síðan eina mark leiksins um miðjan hálfleikinn.
Dagný Brynjarsdóttir, lengst til vinstri, var einbeitt fyrir leik og skoraði síðan eina mark leiksins um miðjan hálfleikinn. Mynd/Twitter/@PinatarArena

Íslenska kvennalandsliðið vann 1-0 sigur á Norður Írlandi í fyrsta leik sínum á Pinatar æfingamótinu á Spáni. Ísland á eftir að mæta Úkraínu og Skotlandi á árinu.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði eina mark íslenska liðsins á 24. mínútu þegar fyrirgjöf hennar breyttist í skot og sveif laglega yfir markvörð norður írska liðsins.

Hin sextán ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir lék sinn fyrsta A-landsleik og hélt marki sínu hreinu. Cecilía Rán var vel á verði í markinu og varði einu sinni mjög vel í horn.

Íslenska liðið hefur oft spilað mun betur en í dag og þurfti greinilega á þessari leikæfingu að halda.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir var ein af þremur sem léku sinn fyrsta landsleik í dag. Natasha Moraa Anasi kom inn á í hálfleik og Hildur Antonsdóttir spilaði síðustu mínúturnar.

Dagný Brynjarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir spiluðu bara fyrri hálfleikinn og  Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir tók við fyrirliðabandinu af Söru í hálfleik.

Það er hægt að horfa aftur á leikinn hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×