Erlent

Ætlar ekki að lýsa yfir stuðningi við annan frambjóðanda að sinni

Andri Eysteinsson skrifar
Warren ásamt Mann eiginmanni sínum við heimili þeirra í dag.
Warren ásamt Mann eiginmanni sínum við heimili þeirra í dag. Getty/Scott Eisen

Öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren, hefur dregið framboð sitt í forvali Demókrataflokksins til baka. Warren segist ekki ætla að lýsa yfir stuðningi sínum við annan frambjóðanda flokksins, í bili.

Warren naut um tíma mikils stuðnings á landsvísu og mældist hún á tímabili með næstmestan stuðning frambjóðenda. Eftir að forvalið hófst í febrúar fór fylgi hennar að minnka og hlaut hún aldrei það fylgi sem hún hafði vonast eftir. Náði hún aldrei meira en þriðja sæti í forvalskosningum.

„Ég tilkynnti í morgun að ég hef ákveðið að draga framboð mitt til Forseta Bandaríkjanna til baka,“ hefur CNN eftir Warren en hún ræddi við fjölmiðla fyrir utan heimilli hennar í Cambridge í Massachusetts í dag.

Warren þakkaði stuðningsmönnum sínum fyrir og sagðist munu halda áfram baráttunni fyrir betri lífsgæðum allra Bandaríkjamanna. Eftir niðurstöður forvalskosninga undanfarnar vikur og sérstaklega eftir ofurþriðjudaginn svokallaða þykir ljóst að annaðhvort Bernie Sanders eða Joe Biden hljóta tilnefningu Demókrata.

Frambjóðendurnir Pete Buttigieg, Mike Bloomberg og Amy Klobuchar sem létu gott heita í vikunni lýstu bæði við stuðningi við varaforsetann fyrrverandi, Joe Biden. Warren segist þó ekki ætla að lýsa strax yfir stuðningi við neinn þeirra þriggja frambjóðenda sem eftir standa.

„Ég vil fá smá tíma til að hugsa aðeins meira um þetta,“ sagði Warren.

Auk þeirra Biden og Sanders er þingkonan frá Havaí, Tulsi Gabbard enn á meðal frambjóðenda. Hún hefur þó eingöngu tryggt sér einn kjörmann til þessa. Sanders hefur 584 á sínum snærum og Biden 656.


Tengdar fréttir

Útlit fyrir nokkuð jöfn skipti hjá Demókrötum

Fjórtán ríki greiða atkvæði í forvali Demókrata fyrir bandarísku forsetakosningarnar í dag. Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, og Bernie Sanders öldungadeildarþingmaður eru sigurstranglegastir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×