Erlent

Smitum fækkar hratt í Kína

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fjörutíu ný smit hafa verið staðfest í Kína síðasta sólarhringinn.
Fjörutíu ný smit hafa verið staðfest í Kína síðasta sólarhringinn. Vísir/getty
Útbreiðsla kórónuveirunnar sem veldur Covid-19-sjúkdómnum hefur dregist saman og tilfellum fækkað í Asíu á síðasta sólarhring en ástandið í Evrópu og Bandaríkjunum heldur áfram að versna. Þetta eru stóru línurnar í þróun útbreiðslunnar á síðasta sólarhring. Alls hafa yfir 110 þúsund tilfelli nú verið staðfest á heimsvísu.

Tilfellum í Bandaríkjunum hefur fjölgað talsvert á síðasta sólarhring en staðfest smit eru nú 565. Veiran hefur dregið minnst tuttugu og einn til dauða þar vestra. New York og Kalifornía hafa farið verst út úr faraldrinum en að minnsta kosti átta ríki hafa lýst yfir neyðastigi.

Tveir þingmenn repúblikanaflokksins, Ted Cruz og Paul Gosar, eru í sóttkví eftir að hafa báðir umgengist einstakling sem reyndist sýktur.

Betri fréttir fást aftur á móti frá Kína þar sem tilfellum hefur loks tekið að fækka. Fjörutíu ný smit hafa verið staðfest í landinu síðasta sólarhringinn sem er lægsta tala sem kínversk heilbrigðisyfirvöld hafa gefið frá sér á innan við sólarhring síðan yfirvöld hófu að birta tölur yfir smit í janúar.

Ítalía hefur sem kunnugt er farið verst út úr faraldrinum en 7.300 hafa greinst með veiruna og 366 látið lífið. Forsætisráðherra Ítalíu tilkynnti ítölsku þjóðinni árla sunnudags að um það bil fjórðungur þjóðarinnar yrði settur í sóttkví en strangt ferðabann hefur verið tekið í gildi í Langbarðalandi auk fjórtán annarra sýsla í mið- og norðurhluta landsins.

Frönsk stjórnvöld hafa nú bannað samkomur þar sem fleiri en þúsund manns eða fleiri koma saman. Þetta tilkynnti Olivier Véran heilbrigðisráðherra landsins í dag. Stjórnvöld höfðu áður bannað samkomur þar sem fimm þúsund eða fleiri komu saman innandyra. Tólf hundruð og níu tilfelli hafa verið staðfest í Frakklandi og nítján dauðsföll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×