Innlent

Bíla­búð Benna gert að greiða 14 milljónir vegna gallaðs Porsche

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bifreiðin var keypt á 13.550.000 krónur árið 2016.
Bifreiðin var keypt á 13.550.000 krónur árið 2016. Silas Stein/Getty

Bílabúð Benna ehf. hefur verið gert að greiða kaupanda Porsche Cayenne bifreiðar tæpar 14 milljónir króna, auk dráttarvaxta, vegna riftunar á samningi um kaup á bílnum. Dómur þess efnis féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 20. júlí síðastliðinn.

Bíllinn var keyptur þann 10. október 2016 og var kaupverðið 13.550.000 krónur. Þá var bíllinn seldur með tveggja ára ábyrgð. Málið á hendur Bílabúð Benna var höfðað 26. júní 2019, en fram að því hafði kaupandi bifreiðarinnar ítrekað kvartað undan vökvasöfnun í bílnum, sem meðal annars olli „megnri ólykt.“

Eftir þó nokkrar árangurslausar tilraunir til þess að finna lausn á vandanum fór kaupandi fram á riftun kaupsamnings vegna bifreiðarinnar. Þetta felldi Bílabúðin sig ekki við og taldi að um óverulegan galla á bifreiðinni væri að ræða. Kaupandi óskaði þá eftir ráðgefandi áliti kærunefndar lausafjár-og þjónustukaupa í málinu.

Nefndin féllst á riftun kaupsamnings og að Bílabúðinni bæri að endurgreiða kaupverð bifreiðarinnar með dráttarvöxtum, en einnig að kaupandanum bæri að greiða rúmlega 1,1 milljón króna fyrir afnot af bifreiðinni í rúmlega eitt og hálft ár. Bílabúðin felldi sig ekki við þá niðurstöðu og í kjölfarið höfðaði kaupandi bifreiðarinnar málið.

Í dómi sínum vísar héraðsdómur meðal annars til þess að af tölvupóstsamskiptum aðila megi ráða að vatnssöfnun bifreiðarinnar hafi verið viðvarandi vandamál í lengri tíma. Þá taldi dómurinn að meta þyrfti þann langa tíma sem leið frá því kaupandinn tilkynnti fyrst um gallann og þar til hann lýsti riftun kaupanna. Þannig megi skilja að úrbótatilraunir Bílabúðarinnar hafi haft í för með sér verulegt óhagræði fyrir kaupandann. Eins segir dómurinn, með vísan til samskipta kaupandans og Bílabúðarinnar, að síðarnefndi aðilinn hafi fjórum sinnum fengið tækifæri til að bæta úr gallanum.

Bílabúðinni var því gert að greiða kaupandanum 13.761.097 krónur auk dráttarvaxta vegna riftunarinnar. Þá var henni einnig gert að greiða kaupanda bifreiðarinnar 1.800.000 krónur í málskostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×