Innlent

Segir breytingar á náms­lána­kerfinu löngu tíma­bærar

Sylvía Hall skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra segir breytingar á námslánakerfinu löngu tímabærar og hún sé spennt að sjá það mál klárast í þinginu. Allsherjar- og menntamálanefnd hafi verið að klára nefndarálitið og hún eigi von á því að þetta komi til afgreiðslu í þinginu fljótlega.

„Það verða auðvitað algjör tímamót að sjá breytingar á menntasjóði námsmanna. Það hafa ekki átt sér stað stórar breytingar á lánasjóðnum frá árinu 1992 þannig að þetta er löngu tímabær breyting,“ sagði Lilja um frumvarpið í Víglínunni í gær.

Frumvarpið felur í sér þrjátíu prósenta niðurfellingu á höfuðstól lánanna og aðstoðin verði mun jafnari með þessum breytingum. Þó hefur frumvarpið verið gagnrýnt, meðal annars af stúdentahreyfingunum, fyrir breytingar á vaxtafyrirkomulaginu.

Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti stúdentaráðs Háskóla Íslands, benti til að mynda á það í pistli á Vísi í nóvember síðastliðnum að vaxtafyrirkomulagið myndi gera það að verkum að slæmt efnahagsástand og slæm staða ríkissjóðs myndi bitna á lánagreiðendum í nýju kerfi. Lilja segir nefndarmenn hafa skoðað það að setja vaxtaþak en allar sviðsmyndir geri ráð fyrir því að námsmenn komi betur út úr nýja kerfinu en því gamla.

„Sumir námsmenn í gamla kerfinu voru nokkrir að fá 85% niðurfellingu á meðan aðrir voru jafnvel að fá 0,5% eða 2% niðurfellingu. Ég tel að þannig kerfi sé ósanngjarnt og þess vegna erum við að breyta því. Stuðningurinn verður mun jafnari,“ segir Lilja.

Þá segir hún nýja kerfið koma mun betur út fyrir barnafólk og það sé mikilvægt á tímum þar sem fæðingartíðni sé í sögulegu lágmarki.

„Það er sérstakur stuðningur við barnafólk […] Þú kemur mun betur út úr nýja kerfinu ef þið eruð með fjölskyldu og það eru margar breytingar sem eru til þess gerðar að styðja við fjölskyldufólk í landinu.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Lilju í fullri lengd.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.