Innlent

Fjór­tán daga sótt­kví fyrir þá sem dvalið hafa á hótelinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla stendur vörð um Costa Adeje Palace-hótelið í dag. Enginn kemst inn eða út.
Lögregla stendur vörð um Costa Adeje Palace-hótelið í dag. Enginn kemst inn eða út. Vísir/Lóa Pind

Sóttvarnalæknir ráðleggur þeim Íslendingum sem dvalið hafa á H10 Costa Adeje Palace-hótelinu á Tenerife að vera í sóttkví í fjórtán daga við heimkomu til Íslands. Sérstökum ráðleggingum eða takmörkunum verður ekki beint til annarra á Tenerife.

Greint var frá því í morgun að sjö Íslendingar væru í sóttkví á hótelinu eftir að ítalskur læknir, sem þar hafði dvalið, greindist með kórónaveiru.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við Vísi að staðan sé sú að eitt tilfelli kórónuveirunnar hafi greinst á Tenerife. Íslendingum sem verið hafa á áðurnefndu hóteli sé ráðlagt að sæta fjórtán daga sóttkví. Þetta eru sömu leiðbeiningar og beint hefur verið til farþega frá fjórum héröðum á Norður-Ítalíu, sem og Kína.

Þórólfur segir jafnframt mikilvægt að fólk láti skoða sig, finni það fyrir einkennum veirunnar. Leiðbeiningar þess efnis er að finna á vef sóttvarnalæknis og hefur embættið hamrað á þeim í tengslum við fregnir af veirusmitum.

Engum takmörkunum eða sérstökum ráðleggingum verður beint til annarra á Tenerife að svo stöddu. Þórólfur segir þó að það gæti breyst ef fleiri tilfelli koma upp á eyjunni. Mælst er til þess að Íslendingar á Tenerife tilkynni sig til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins svo að hægt sé að fá skýrari mynd af stöðu mála.

Tvær flugvélar frá Tenerife eru á áætlun til Keflavíkur í dag, ein með Norwegian Air síðdegis og hin með Icelandair í kvöld. Mikill viðbúnaður er við hótelið á Tenerife, lögregla stendur vörð fyrir utan og enginn kemst þar inn eða út.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×