Fótbolti

Getur Manchester City bjargað andliti ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það reynir á Sergio Aguero og félaga í Manchester City á heimavelli Real Madrid í kvöld.
Það reynir á Sergio Aguero og félaga í Manchester City á heimavelli Real Madrid í kvöld. Getty/Laurence Griffiths

Liðin úr ensku úrvalsdeildinni hafa verið allt annað en sannfærandi í fyrri leikjum sínum í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Stærsta áfallið var vissulega í gærkvöldi þegar Chelsea tapaði 3-0 á heimavelli sínum en bæði Liverpool og Tottenham töpuðu líka sínum leikjum.

Uppskera þessara þriggja ensku liða eftir fyrri leikinn eru því þrjú töp í þremur leikjum, ekkert mark skorað og markatalan 0-5 þeim í óhag.

Liverpool á heimaleikinn eftir og er því í bestu stöðunni af þessum þremur liðum því bæði Chelsea og Tottenham fara út með tap og útivallarmark/mörk á bakinu.

Það heyrist ekki hátt í þeim sem halda því fram að enska úrvalsdeildin sé besta knattspyrnudeildin í Evrópu í dag en þær raddir voru háværar í vor þegar England átti bæði liðin í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Ensku liðin þrjú eru nú þau einu, af þeim tólf sem hafa spilað fyrri leikinn sinn, sem hafa ekki náð að skora mark í sextán liða úrslitunum í ár.

Síðasta von ensku úrvalsdeildarinnar um hagstæð úrslit í fyrri hluta sextán liða úrslitanna er hjá Englandsmeisturum Manchester City sem heimsækja Real Madrid á Estadio Santiago Bernabéu í kvöld.

Eftir 270 markalausar mínútur hjá ensku liðunum gæti útivallarmark á Bernabéu í kvöld skipt Manchester City miklu máli.

Leikurinn hefst klukkan 20.00 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir Meistaradeildina hefst klukkan 19.15 á Stöð 2 Sport og eftir leikina verða þeir gerðir upp í Meistaradeildarmörkunum á sömu stöð. Leikur Lyon og Juventus verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


Markalausu liðin í fyrri leik sextán liða úrslitanna 2019-20:
Liverpool, Englandi
Tottenham, Englandi
Chelsea, Englandi
- öll hin liðin hafa skorað

Ensku liðin og 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar síðustu ár:

2018-19
Fyrri leikir: 2 sigrar (Man. City og Tottenham), 1 jafntefli (Liverpool) og 1 tap (Man Utd).
Marktalan í fyrri leikjum: +1 (5-4)
Hverjir fóru áfram: 4 (Man.City, Liverpool, Tottenham og Man. United).

2017-18
Fyrri leikir: 2 sigrar (Man. City og Liverpool) og 2 jafntefli (Tottenham, Man. Utd).
Marktalan í fyrri leikjum: +9 (11-2)
Hverjir fóru áfram: 3 (Man.City, Liverpool og Tottenham).

2016-17
Fyrri leikir: 1 sigur (Man. City) og 2 töp (Arsenal, Leicester).
Marktalan í fyrri leikjum: -3 (7-10)
Hverjir fóru áfram: 1 (Leicester City).

2015-16
Fyrri leikir: 1 sigur (Man. City) og 2 töp (Arsenal, Chelsea).
Marktalan í fyrri leikjum: -1 (4-5)
Hverjir fóru áfram: 1 (Manchester City).

2014-15
Fyrri leikir: 1 jafntefli (Chelsea) og 2 töp (Man. City, Arsenal).
Marktalan í fyrri leikjum: -3 (3-6)
Hverjir fóru áfram: 0.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.