Fótbolti

Aron vill halda Hamrén og segir hungur í strákunum okkar

Anton Ingi Leifsson skrifar

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins, er spenntur fyrir komandi leik gegn Rúmeníu og segir að liðið þurfi að nýta reynsluna úr fyrri leikjum er liðið mætir Rúmenum.

Ísland mætir Rúmeníu 26. mars en 29 dagar eru þar af leiðandi í stórleikinn. Leikurinn er undanúrslitaleikur um sæti á EM en sigurvegarinn úr viðureigninni mætir Ungverjalandi eða Búlgaríu í úrslitaleiknum.

Ríkharð Óskar Guðnason, betur þekktur sem Rikki G, sló á þráðinn til Katar í gær og ræddi við landsliðsfyrirliðann Aron Einar.

„Þetta eru alltaf jafn mikilvægir leikir en þessi Rúmeníu leikur tryggir okkur sæti í úrslitaleik um sæti á EM og það er hrikalega stórt. Maður er orðinn hrikalega spenntur,“ sagði Aron Einar.

„Það sem ég hef heyrt um þá eru þeir að kynslóðin sem er að koma upp hjá þeim er mjög sterk. Þeir gerðu vel í U21 og hafa verið að skila sér upp í A-liðið. Stöðugleiki hefur vantað hjá þeim í þessa undankeppni en þeir hafa spilað skemmtilega leiki og aðra misgóða.“

„Við þurfum að vera á tánum og við vitum hverjir eru okkar styrkleikar. Við erum með þessa reynslu sem kemur vonandi til að reynast okkar vel í þessum leik. Við þurfum að nýta okkar tækifæri og okkar styrkleika. Þá förum við áfram.“

Aron Einar fagnar marki gegn Tyrklandi ásamt Ragnari Sigurðssyni og Kára Árnasyni.vísir/daníel

Ánægður með hvernig KSÍ hefur tæklað vallarmálin

Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson hafa til að mynda verið að glíma við meiðsli en Aroni líður vel í líkamanum. Hann segir einnig að öðrum leikmönnum miði vel fyrir leikinn.

„Staðan á mér er frábær. Mér líður vel og er að æfa aukalega með þessa leiki í huga. Ég er að spila einu sinni í viku og fínt ról. Ég er í góðu standi og mér sýnist að tímasetningin hjá öðrum leikmönnum sé fín, hjá þeim leikmönnum sem hafa verið að glíma við meiðsli.“

„Þeir eru að koma til baka og eru á fínum tíma fyrir þennan leik. Okkur hlakkar til að koma saman og fara í leik þar sem er allt undir. Hvernig við tæklum það verður að koma í ljós en við verðum að nýta okkar reynslu úr þessum stóru leikjum. Vera óhræddir og nýta okkar styrkleika.“

Þegar Aron kemur heim fyrir leikina í lok mars eru líkur á að hitastigið verði í kringum frostmark. Hann æfir dags daglega í rúmlega 30 stiga hita en segir að það verði ekkert vandamál að venjast kuldanum.

„Ég er vanur þessu líka svo ég er ekkert að fara láta það hafa áhrif á mig. Auðvitað er það skrýtið að fara úr hita í kulda en það tekur kannski eina æfingu að venjast því. Ég hef ekki áhyggjur af því.“

„Ég er ánægður með KSÍ hvernig þeir hafa staðið sig í því að fá leikinn á völlinn. Það er mikil vinna búin að fara í það og gífurlega mikilvægt að ná þessum leik á vellinum. Laugardalsvöllur hefur verið okkur mikilvægur í gegnum tíðina og það verður okkur mikilvægt.“

Aron segir að sambandið við Hamrén sé gott.vísir/

Ætla sér á EM

Aron segir að það sé enn mikið hungur í strákunum okkar og enginn orðinn saddur eftir að hafa farið á tvö stórmót.

„Algjörlega. Mér líður þannig og ég veit að strákunum líður eins. Við erum búnir að fá smjörþefinn af lokamóti og þar viltu vera. Þar viltu keppa. Við viljum vera á þessum lokamótum og á þessum stórmótum. Ef þú ert saddur áttu ekkert að vera í þessu lengur. Það er enginn sofandi háttur eða hungurleysi í okkar hóp. Það kemur ekki til greina.“

Fyrirliðinn vill halda Erik Hamren sama hvað gerist í næsta landsleikjaglugga.

„Auðvitað. Hann er búinn að lenda í ýmsum skakkaföllum með hópinn og auðvitað hefur hann kannski ekki fengið að velja úr öllum sínum leikmönnum. Það setur strik í reikninginn hvað varðar spilamennsku og úrslit.“

„Mér finnst hann hafa tæklað þá pressu mjög vel. Hann er staðráðinn í að gera vel og við vitum að hann er jafn hungraður og við að komast á þetta mót og sanna sig.“

Ef Aron yrði spurður; myndi hann mæla með því að Hamrén yrði áfram?

„Já. Það er ekki undir mér komið en við eigum gott samband. Hann og leikmennirnir eiga í góðu sambandi svo það er ekkert þar. Stjórn KSÍ og aðrir taka þá ákvörðun og svo er það undir honum sjálfum komið. Við ætlum okkur á EM og það er eina sem við hugsum.“

„Við erum ekkert að hugsa hvort að þjálfarinn verði áfram ef við komumst ekki á EM, heldur ætlum við bara á EM og gera það almennilega,“ bætti Aron við að lokum.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×