Innlent

Um­­­ferð afar hæg í snjónum á höfuð­­borgar­­svæðinu í morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá umferðinni á höfuðborgarsvæðinni í morgun. Bíll við bíl á Álftanesvegi.
Frá umferðinni á höfuðborgarsvæðinni í morgun. Bíll við bíl á Álftanesvegi. Vísir/Kolbeinn Tumi

Umferð hefur gengið afar hægt á höfuðborgarsvæðinu í morgun en engin óhöpp hafa þó orðið. Snjó hefur kyngt niður í höfuðborginni það sem af er morgni og áfram mun ganga á með éljum í dag, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Hannes Þór Guðmundsson varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að fólk hafi líklega farið af stað í seinna fallinu í morgun. Létta muni á umferðinni nú á tíunda tímanum. Þá hefur verkfall borgarstarfsmanna ekki áhrif á snjómokstur á götum borgarinnar.

Þegar Vísir náði tali af Guðbrandi Sigurðssyni aðalvarðstjóra hjá umferðardeild nú um níuleytið var hann staddur á Suðurlandsbraut á leið til vinnu og hafði þá verið um klukkutíma á leiðinni ofan úr Mosfellsbæ. Guðbrandur segir aksturinn venjulega taka um tuttugu mínútur, sem er til marks um seinagang umferðarinnar í morgun.

Þá lítur út fyrir að snjói meira á höfuðborgarsvæðinu í dag, að sögn Eiríks Arnar Jóhannessonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Hann segir ofankomuna þó ekki verða samfellda líkt og í morgun en él gætu haldið áfram fram á nótt.

Gul viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan sjö í kvöld. Þá fer að hvessa töluvert og snjóar áfram.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.