Real Madrid missteig sig gegn Celta Vigo

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ramos fagnaði of snemma í kvöld.
Ramos fagnaði of snemma í kvöld. Vísir/Getty

Real Madrid er áfram á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir 2-2 jafntefli gegn Celta Vigo í kvöld. Forskot þeirra er þó aðeins eitt stig á erkifjendurna í Barcelona.

Gestirnir í Celta Vigo, sem eru í harðri fallbaráttu, komust óvænt yfir á 7. mínútu þegar Iago Aspas sendi knöttinn í gegnum vörn Real og Fedor Smolov skoraði af öryggi framhjá Thibaut Courtois í markinu.

Courtois hélt Real svo inn í leiknum með frábærri markvörslu undir lok fyrri hálfleiks en staðan var 1-0 gestunum í vil þegar fyrri hálfleik lauk.

Það tók heimamenn aðeins sjö mínútur að jafna metin í síðari hálfleik en þar var að verki Þjóðverjinn Toni Kroos  með laglegu skoti eftir góðan undirbúning Marcelo.

Það var svo á 65. mínútu sem Ruben Blanco, markvörður Celta, braut klaufalega á Eden Hazard og vítaspyrna dæmd. Sergio Ramos fór á punktinn og skoraði örugglega. 

Leit allt út fyrir að Real myndi í kjölfarið sigla stigunum þremur heim en varamennirnir Denis Suarez og Santi Mina voru á öðru máli. Suarez átti þá snilldar sendingu inn fyrir vörn Real sem Mina lagði fallega framhjá Courtois á 85. mínútu og staðan orðin 2-2. 

Reyndust það lokatölur leiksins og Real Madrid þar af leiðandi aðeins með eins stigs forskot á Barcelona eftir leiki helgarinnar. Real með 53 stig eftir 24 leiki en Barcelona með 52. Liðin mætast í hinum fornfræga El Clasico þann 1. mars næstkomandi, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Celta komst upp úr fallsæti en liðið er með 21 stig í 17. sæti, jafn mörg og Mallorca sem er sæti neðar og því í fallsæti en Celta er með örlítið betri markatölu.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.