Innlent

Búin að missa allt traust á þjónustu við fatlaða dóttur sína

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Móðir fatlaðrar konu sem býr á sambýli í Garðabæ gagnrýnir sveitarfélagið fyrir skeytingaleysi í garð dóttur sinnar. Þrátt fyrir að hafa beðið í næstum tíu ár eftir að komast í íbúðakjarna fyrir fatlaða sé hún enn á biðlista. Þá hafi engin viðbrögð komið þaðan eftir að hún gleymdist í tvígang út í bæ.

Katrín Selby býr í London ásamt eiginmanni sínum en dóttir þeirra hefur frá árinu 2006 verið á sambýli fyrir fatlaða einstaklinga á Sigurhæð í Garðabæ. Katrín segir að fyrir næstum áratug hafi þau sótt um fyrir dóttur þeirra í íbúðakjarna fyrir fatlaða.

„Ég byrjaði að sækja um á bilinu 2009-2010  í Garðabæ og hef aðeins fengið þau svör þaðan allan tímann að hún sé á biðlista. Samkvæmt lögum þá á það svar ekki að gilda. Þá hefur gengið mjög illa að fá svör frá sveitarfélaginu,“ segir Katrín.  

Katrín segir að í lögum um fatlaða komi m.a. fram að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. 

Hún segist svo hafa misst allt traust sitt á þjónustunni við dóttur sína eftir hún gleymdist í tvígang út í bæ.

„Það hafa nýlega komið upp tvö atvik þar sem dóttir mín var skilin eftir á stöðum út í bæ í yfir klukkustund þar sem hún átti að vera sótt. Í fyrra skiptið gleymdist að ná í hana og í síðara skiptið var hún keyrð í tómstund á vitlausum degi og skilin eftir í einn og hálfan tíma. Ég hef miklar áhyggjur af þessu og er búin að missa allt traust á þjónustunni,“ segir Katrín.

Katrín telur að dóttir sín hafi verið í hættu.

„Hún getur ekki tjáð sig og hún var ekki með neitt á sér hver hún er eða hvar hún á heima þannig að ég tel að þetta hafi verið mjög hættulegt,“ segir Katrín.  

Hún segir að bæði hún og faðir konunnar hafi án árangurs beðið Garðabæ um svör.

„Við fáum engin svör frá Garðabæ þrátt fyrir að hafa bæði sent þangað tölvupósta. Mér finnst vera farið illa með fatlaða í dag og ég vona að stjórnmálamenn fari að taka þetta til sín að það verður að fara að hrista eitthvað upp í þessu kerfi,“ segir Katrín.   

Ekki náðist í bæjarstjóra Garðabæjar vegna málsins í dag sem er staddur erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×