Fótbolti

Öruggur sigur Bayern sem er komið í toppsæti deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Thomas Müller lagði upp fyrstu tvö mörk Bayern í dag.
Thomas Müller lagði upp fyrstu tvö mörk Bayern í dag. Vísir/Getty

Bayern München fóru létt með Köln á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 4-1 gestunum frá Bæjaralandi í vil en staðan var orðin 3-0 eftir aðeins 12. mínútna leik.

Gestirnir frá Bæjaralandi gerðu út um leikinn á fyrstu 12 mínútum hans. Eftir aðeins 3. mínútna leik hafði hinn pólski Robert Lewandowski komið knettinum í netið og tveimur mínútum eftir það var Kingsley Coman búinn að tvöfalda forystu gestanna. 

Hinn þýski Thomas Müller lagði upp fyrstu tvö mörk leiksins og er þar með kominn með 14 stoðsendingar í þýsku úrvalsdeildinni í vetur. Þá er Lewandowski búinn að skora 23 deildarmörk, í aðeins 22 leikjum.

Það var svo á 12. mínútu sem Bæjarar gerðu út um leikinn en Serge Gnabry skoraði þá eftir sendingu Joshua Kimmich og staðan því orðin 3-0. Eftir það slökuðu gestirnir á klónni og kom næsta mark leiksins ekki fyrr en á 66. mínútu. Gnabry þá aftur á ferðinni. 

Skömmu síðar minnkaði Mark Uth muninn fyrir heimamenn og þar við sat. Öruggur 4-1 sigur Bayern staðreynd og þeir eru þar með komnir upp fyrir RB Leipzig í töflunni. 

Sigurinn þýðir að Bæjarar eru nú með 46 stig þegar 22 umferðum er lokið, stigi meira en RB Leipzig sem vann Werder Bremen 3-0 í gær. Köln eru á sama tíma í harðri fallbaráttu með 23 stig í 14. sæti deildarinnar, sex stigum fyrir ofan fallsæti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.