Lífið

Þetta fer allt saman í eyði hér í Grafningi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Örn Jónasson, bóndi á Nesjum við Þingvallavatn, í viðtali við Stöð 2.
Örn Jónasson, bóndi á Nesjum við Þingvallavatn, í viðtali við Stöð 2. Stöð 2/Einar Árnason.

„Þetta er náttúrlega allt saman að fara í eyði,“ segir Örn Jónasson, bóndi á Nesjum við Þingvallavatn, í þættinum Um land allt á Stöð 2. Í þættinum er fjallað um mannlíf í Grafningi en þar hefur hefðbundinn sveitabúskapur verið að víkja fyrir orlofshúsabyggð.

Fjallkóngur sveitarinnar, Sigrún Jóna Jónsdóttir, bóndi á Stóra Hálsi, segist vera óttaleg rolla, sér þyki rollur mjög skemmtilegar. Hún vill samt ekki láta kalla sig fjalldrottningu.

„Við viljum ekkert femínistakjaftæði,“ segir hún.

Sigrún Jóna Jónsdóttir, bóndi á Stóra Hálsi og fjallkóngur Grafnings.Stöð 2/Einar Árnason.

Þegar Sigrún er spurð hvort fólk muni áfram búa á jörðum í Grafningi er svarið:

„Það ætla ég rétt að vona. Ég er allavega ekki að fara neitt.“

Sogsvirkjanir höfðu mikil áhrif í sveitunum í kring, bæði í Grafningi og Grímsnesi. Samhliða þeim spruttu íbúðahverfi upp við Sogið; eitt reis við Ljósafoss, annað við Írafoss og það þriðja við Steingrímsstöð. Þar bjuggu á annað hundrað manns þegar mest var og tugir barna voru í Ljósafossskóla.

Frá Írafossvirkjun. Fjær er Ljósafossvirkjun. Sjá má að vatn er á báðum fossum, sem ekki er algengt.Stöð 2/Einar Árnason.

Saga virkjanasamfélagsins við Sogið verður rifjuð upp en eftir að ný tækni gerði kleift að fjarstýra Sogsvirkjunum frá Reykjavík fækkaði störfum þar verulega og byggðin lagðist af. Þó starfa enn sextán manns við Sogsstöðvar á svæðinu.

Þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld klukkan 19.10. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.