Innlent

„Kröpp og dýpkandi“ lægð nálgast landið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á morgun hvessir allhressilega að austan.
Á morgun hvessir allhressilega að austan. Vísir/vilhelm

Gular hríðarviðvaranir taka gildi í nokkrum landshlutum á morgun. „Kröpp og dýpkandi“ lægð nálgast landið, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands, og mun þá hvessa „hressilega“ að austan, síðar norðaustan, og fer að snjóa sunnan- og austanlands.

Í dag má búast við norðankalda og dálitlum éljum norðan til framan af degi en snýst svo í sunnanátt með lítilsháttar slyddu eða snjókomu sunnan- og vestanlands. Léttir til fyrir norðan og austan.

Gular viðvaranir taka svo gildi á Suðurlandi, Suðausturlandi og Austfjörðum síðdegis á morgun. Búast má við hríðarbyl, slæmu skyggni og vindi 15-25 m/s með hviðum allt að 40 m/s. Viðvaranirnar verða í gildi fram á kvöld.

„Fer þó smám saman hlýnandi og rignir við ströndina um kvöldið. Heldur hægari vindur úrkomuminna á vesturhelmingi landsins, en bætir vel í um kvöldið. Áfram stíf norðan- og norðaustanátt á fimmtudag með éljum víða á landinu, en bjartviðri syðra og kólnar heldur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Vaxandi austan- og síðar norðaustanátt, 15-25 m/s eftir hádegi, hvassast við fjöll SA til. Víða snjókoma eða slydda, einkum á A-verðu landinu, en rigning við ströndina um kvöldið. Hlýnar í veðri og hiti 0 til 5 stig með kvöldinu.

Á fimmtudag:
Norðaustan 15-23 m/s norðvestanlands, en annars hægari. Snjókoma á norðanverðu landinu, en él syðra. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag:
Stíf austlæg átt með snjókomu eða éljagangi. Vægt frost víða hvar.

Á laugardag:
Snýst í norðaustanátt með snjókomu víða um land, en léttir til SV-lands og kólnar í veðri.

Á sunnudag:
Líklega hæg vestlæg átt með éljum, einkum V-lands og frosti 1 til 6 stig.

Á mánudag:
Útlit fyrir stífa suðvestanátt með éljum, en bjartviðri N- og A-lands og köldu veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.