Innlent

Konur fá svör eftir skimun hvort sem niðurstaðan er jákvæð eða neikvæð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konur þurfa ekki lengur að bíða milli vonar og ótta eftir bréfi.
Konur þurfa ekki lengur að bíða milli vonar og ótta eftir bréfi. vísir/Vilhelm

Frá og með deginum í dag mun Leitarstöð Krabbameinsfélagsins birta allar rannsóknarniðurstöður skimana í persónulegu pósthólfi kvenna á island.is. Þetta á jafnt við um niðurstöður úr brjóstamyndatökum Leitarstöðvarinnar og leghálsstrokum óháð því hvar þau eru tekin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

Hingað til hefur Leitarstöðin einungis sent konum bréf með niðurstöðum þegar eitthvað hefur fundist óeðlilegt við skimun fyrir leghálskrabbameini. Þeim bréfsendingum verður hætt í pappírsformi og niðurstöðurnar einungis sendar rafrænt.

Með þessari breytingu munu nú allar konur fá niðurstöður úr rannsóknum, hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar og hvort sem er um skimun fyrir brjósta- eða leghálskrabbameini er að ræða.

„Þetta er viðleitni okkar til að mæta nýjum tímum og auka skilvirkni um leið og við hugum að umhverfissjónarmiðum og kostnaði við að senda bréf með hefðbundum hætti,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir og sviðsstjóri leitarsviðs Krabbameinsfélagsins.

Á síðasta ári hóf Leitarstöðin að senda öll bréf um boð í skimun rafrænt inn á island.is jafnhliða því að senda boðsbréfin í bréfpósti. Það fyrirkomulag mun verða áfram í gildi um einhvern tíma.

Vefsvæðið island.is er upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi. Þar geta landsmenn nálgast upplýsingar og notið margvíslegrar þjónustu opinberra aðila á einum stað.

„Hafa þarf í huga að eingöngu er hægt að opna niðurstöður rannsókna með rafrænum skilríkjum, innskráning með íslykli veitir ekki aðgang að niðurstöðunum,“ segir í tilkynningunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.