Innlent

„Okkar fólk hefur augljóslega fengið nóg“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Vísir/vilhelm

Atkvæðagreiðslu BSRB um verkfallsaðgerðir lýkur í dag. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að von sé á því að atkvæðagreiðslu ljúki hjá flestum aðildarfélögum í kvöld og að niðurstaðan muni liggja fyrir um hádegisbil á morgun.

„Það eru einhverjir sem að fá niðurstöðurnar strax í kvöld og einhverjir sem að fá þær á morgun þannig að við gerum ráð fyrir að tilkynna um niðurstöðurnar í kringum hádegið á morgun,“ segir Sonja, sem á von á því að þær verði kynntar allar í einu. Um 18 þúsund félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum falla undir umrædda kjarasamninga. „En svo eru þetta mismunandi aðgerðir sem er verið að leggja undir félagsmennina,“ segir Sonja.

Hún bindur vonir við að þátttaka í atkvæðagreiðslunni verði góð. „Við höfum heyrt það frá aðildarfélögunum að atkvæðagreiðslan hafi gengið vel. Við þurfum að fá helmings þátttöku til þess að þær séu gildar en það líka kemur skýrt fram frá aðildarfélögunum að það er mikill hugur í okkar fólki,“ segir Sonja. 

Miðað við niðurstöður af vinnustaðafundum og af samtölum í baklandinu að dæma telur Sonja líklegt að verkföll verði samþykkt. „Enn og aftur þá vil ég árétta að það er mjög mikilvægt að sem flestir taki þátt og greiði atkvæði,“ segir Sonja. „Það er auðvitað þannig að það óskar sér enginn að fara í verkfall til þess að ná ásættanlegum kjarasamningum en okkar fólk hefur augljóslega fengið nóg eftir nærri árs bið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×