Erlent

Vilja ekki að Samherjaskip yfirgefi Namibíu án þess að lögregla viti af því

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Paulus Noa, framkvæmdarstjóri spillingarlögreglunnar ACC í Namibíu.
Paulus Noa, framkvæmdarstjóri spillingarlögreglunnar ACC í Namibíu. Skjáskot/One Africa TV

Spillingarlögreglan í Namibíu ráðleggur stjórnvöldum þar í landi að tryggja það að fiskiskipum eða einstaklingum í Namibíu sem tengist Samherjamálinu á einhvern hátt verði ekki leyft að yfirgefa landið, án þess að lögregla verði fyrst látin vita.

Þetta kemur fram á namibíska fréttavefnum New Era en Rúv greindi fyrst frá hér á landi.

Er þetta haft eftir Paulus Noa, yfirmanni spillingarlögreglunnar, sem segir að um sé að ræða gríðarlega umfangsmikið mál og að búist sé við að fleiri handtökur séu framundan vegna rannsóknar málsins.

Fyrir helgi var greint frá því að sjómenn á Sögu, skipi Samherja í Namibíu, hafi áhyggjur um stöðu sína eftir að skipinu var siglt til Las Palmas á Kanarí-eyjum.

Í frétt New Era segir að yfirvöld í Namibíu vinni nú að því að Saga skili sér aftur til Namibíu.

Nokkrir fyrrverandi ráðherrar og einstaklingarþeim tengdir sitja í gæsluvarðhaldi í Namibíu vegna málsins.Eru þeir grunaðir um spillingu, fjársvik og mútuþægni í tengslum við Samherjamálið svonefnda.

Þeim Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanni Fishcor, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasyni Esau og frænda áðurnefnds James, og Ricardo Gustavo, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins Namgomar, er gefið að sök að hafa þegið hið minnsta 103,6 milljónir namibíudala í mútur frá félögum tengdum Samherja, í skiptum fyrir aðgang að gjöfulum fiskimiðum Namibíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×