Innlent

Eiga von á kæru eftir heimsókn í heita pottinn

Andri Eysteinsson skrifar
Suðurbæjarlaug
Suðurbæjarlaug Hafnarfjarðarbær/Lárus Karl Ingason

Afskipti voru höfð af ungu pari í nótt en parið hafði skellt sér í heita pottinn í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði eftir lokun. Lögregla kom á staðinn og rak fólkið upp úr, tók niður upplýsingar og á fólkið von á kæru fyrir baðferðina.

Baðferðin óheimila var eitt af 75 málum sem komu upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 17-05 en í kjölfarið gistu sjö manns í fangaklefa. Í dagbók lögreglu segir að nokkuð hafi verið um umferðaróhöpp vegna hálku en engin slys urðu vegna þessa.

Eitthvað var um ölvunarakstur í borginni í nótt og sömu sögu er að segja af ofurölvi fólki sem lögregla þurfti að aðstoða.

Flösku var kastað í höfð konu á skemmtistað í miðbænum, var hún flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á sjúkrahús. Tilkynnt var um bílveltu í Hvalfirði, engin meiðsli urðu á fólki en bíllinn er óökufær.

Þá var tilkynnt um mjög ölvaðan mann sem reyndi að komast inn í hús í Grafarholti eftir samtal við lögreglu var komist að því að maðurinn bjó í nágrenninu en sökum ástands gerði hann sér ekki grein fyrir staðsetningu sinni, var honum fylgt til síns heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×