Erlent

Þjóðar­at­kvæða­greiðsla í Sviss um að mis­munun gagn­vart hin­­segin fólki verði refsi­verð

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Heimir Már Pétursson skrifa
Hinseginfánar að húni í tilefni af Pride göngunni í Genf í Sviss.
Hinseginfánar að húni í tilefni af Pride göngunni í Genf í Sviss. epa/MARTIAL TREZZINI

Svisslendingar ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu í dag um um hvort setja eigi í hegningarlög að mismunun vegna kynhneigðar og kynvitundar verði refsiverð.

Nú þegar er ólöglegt í Sviss að mismuna fólki vegna kynþáttar og trúarbragða. Andstæðingar tillögunnar segja að hún muni skerða tjáningarfrelsið verði hún að lögum.

Anna Rosenwasser talskona réttindasamtaka lesbía í landinu segir í viðtali við BBC að margir Svisslendingar haldi að landið sé mun nútímalegra en það sé í raun og veru. Á regnbogalista um réttindi hinsegin fólks í 49 löndum í heiminum sé Sviss í tuttugasta og þriðja sæti. Svisslendingar væru kannski ríkir en ekki komnir langt í þessum efnum. Til að mynda væru sjálfsvíg meðal hinsegin fólks fimm sinnum algengari en almennt þekktist hjá öðrum hópum í landinu.

Stuðningsmenn tillögunnar segja að enginn verði lögsóttur fyrir að láta athugasemdir falla í einkasamtölum eða fyrir trú sína. Lögin eigi hins vegar að vernda hinseginsamfélagið frá mismunun og aðkasti.

Meðlimir hinsegin samfélagsins í Sviss lýstu því þegar tekið var viðtal við þá í svissneska dagblaðinu 20 Minuten að þeir hafi oft orðið fyrir líkamsárásum og sumir hafi jafnvel þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Nokkrir ungir menn sem talað var við fyrir sama dagblað sögðu að þeim þætti í lagi að ráðast á samkynja pör og einhverjir ýjuðu jafnvel að því að hægt væri að „lækna þau með nokkrum höggum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×