Erlent

Þingkosningum á Nýja-Sjálandi frestað

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jacinda Ardern er forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern er forsætisráðherra Nýja-Sjálands. Getty

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur tilkynnt að þingkosningum í ríkinu verði frestað um tæpan mánuð vegna kórónuveirufaraldursins. Vel gekk að takast á við faraldurinn í ríkinu fyrst um sinn, en upp á síðkastið hefur hallað undan fæti og nýsmituðum fjölgað hratt.

Guardian greinir frá því að Ardern hafi ráðfært sig við alla stjórnmálaflokkana sem nú sitja á þingi Nýja-Sjálands um frestun kosninganna. Í kjölfarið hafi hún tekið ákvörðun um að færa kosningarnar til 17. október en þær áttu upprunalega að fara fram 19. september.

Hún segir að kjörstjórn hafi hafnað hugmyndum um að fresta kosningunum um tvær vikur, þar sem það þótti ekki nægur tími til að endurskipuleggja kosningarnar.

Síðastliðinn þriðjudag greindust fyrstu kórónuveirusmitin á Nýja-Sjálandi í rúma 102 daga. Alls eru smitin síðan þá orðin 69. Einna verst er ástandið í Auckland, stærstu borg Nýja-Sjálands, en þar hefur útgöngubanni verið komið á til að hefta útbreiðslu faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×