Innlent

Hefði verið ein­faldara að hitta ekki vin­konurnar

Sylvía Hall skrifar
Þórdís Kolbrún segir hópinn sem hittist í gær hafa hugað að sóttvarnareglum. 
Þórdís Kolbrún segir hópinn sem hittist í gær hafa hugað að sóttvarnareglum.  Vísir/Vilhelm

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir hafa nýtt langþráðan frídag í að hitta æskuvinkonur sínar í gær. Fréttablaðið greindi frá málinu í morgun þar sem Þórdís var sögð hafa verið á vinkonudjammi, sem hún segir ekki rétt. Hún hafi átt góðan dag en eftir á að hyggja hefði verið einfaldara að vera ekki með þeim.

Að sögn Þórdísar eyddu vinkonurnar deginum saman í miðbæ Reykjavíkur og borðuðu saman kvöldmat. Líkt og aðrir vinahópar hafi þær verið saman á borði en virt þær ráðstafanir sem gerðar voru á stöðunum.

Skjáskot af myndunum hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem fólk gagnrýnir skort á tveggja metra fjarlægðarmörkum.Skjáskot/aðsend

Hópurinn birti myndir frá deginum á Instagram þar sem þær sitja þétt saman fyrir myndatöku. Myndirnar hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum og hefur ráðherrann verið gagnrýndur fyrir að huga ekki að tveggja metra reglunni.

Í samtali við Vísi segir Þórdís hópinn hafa verið mjög meðvitaðan um sóttvarnarreglur og einstaklingsbundnar smitvarnir. Þær geri sér grein fyrir því að þær búi ekki í sama húsi og þurfi að gæta að öllu slíku. 

Þórdís hefur einnig tjáð sig um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hún ítrekar að þeir staðir sem hópurinn sótti fylgdu tilmælum yfirvalda hvað varðar sóttvarnir.

„Eftir sundferð okkar fjölskyldunnar í gær eins og aðra daga hitti ég vinkonur á veitingastað í hádeginu í gær sem passaði allar reglur en við sátum saman á borði eins og vinir gera sem borða saman. Starfsfólk var með grímur og tveggja metra regla tryggð gagnvart ótengdum aðilum á staðnum,“ skrifar Þórdís. 

Þær hafi svo í kjölfarið farið í verslanir í miðbænum og gengið niður Laugaveginn. „Eins og fleiri gerðu á góðviðris degi.“

Hún segir alrangt að tala um hitting vinkvennanna sem djamm. Þær hafi borðað saman kvöldmat og Þórdís hafi sjálf verið komin heim um miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×