Innlent

Öflug skjálftahrina nærri Grindavík

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjallið Þorbjörn skammt frá Grindavík.
Fjallið Þorbjörn skammt frá Grindavík. vísir/vilhelm

Þrír snarpir jarðskjálftar hafa mælst síðasta klukkutímann nærri Grindavík, sá stærsti 4,3 að stærð klukkan 22:24 í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Einnig hafa fundist þó nokkrir eftirskjálftar á svæðinu. Engin merki sjást um gosóróa að sögn vakthafandi jarðvísindamanns hjá Veðurstofunni.

Annar skjálfti mældist klukkan 22:22 að stærð 4,0 og sá þriðji mældist 21:45 sem var 3,4 að stærð. Upptök þeirra eru fjórir til fimm kílómetrar norðnorðaustur af Grindavík. Skjálftarnir fundust vel á Reykjanesinu og hafa tilkynningar um skjálftann borist Veðurstofunni frá höfuðborgarsvæðinu og allt norður að Akranesi.

Um er að ræða stærstu skjálfta sem mælst hafa á svæðinu frá því að skjálftahrina hófst þar 21. janúar síðastliðinn. Talsverð eftirskjálftavirkni er á svæðinu og búast má við að hún haldi eitthvað áfram.

Áframhaldandi jarðskjálftavirkni hefur mælst í nágrenni við Grindavík í dag og kvöld en smá hrina hófst rétt fyrir hádegi þar sem að stærsti skjálftinn mældist 2,5 að stærð kl. 11:17.

Tveir skjálftar yfir þremur að stærð mældust einnig nærri Grindavík á miðvikudag. Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna jarðhræringa vestan við fjallið Þorbjörn sem er í nágrenni Grindavíkur.

Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni á svæðinu og að áfram finnist stærstu skjálftarnir í hrinunni í grennd við Grindavík. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-9 km dýpi rétt vestan við Þorbjörn. Líklegast er að virknin ljúki án eldsumbrota.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 23:22.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×