Fótbolti

Muller segir yfirburði Bayern í gær meiri en Þýskalands yfir Brasilíu

Ísak Hallmundarson skrifar
Muller var valinn maður leiksins í gær.
Muller var valinn maður leiksins í gær. getty/Michael Regan

Bayern Munchen vann ótrúlegan 8-2 sigur á Barcelona í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær. 

Thomas Muller, leikmaður Bayern, var einnig í liði Þýskalands sem sigraði Brasilíu 7-1 í undanúrslitum HM 2014 í Brasilíu.

Muller skoraði fyrsta mark leiksins í gær líkt og í leik Þýskalands og Brasilíu. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Barcelona sagði Þjóðverjinn eftir leik að yfirburðir Bayern gegn Börsungum í gær hefðu verið meiri en yfirburðir Þjóðverja gegn Brasilíumönnum árið 2014.

„Í Brasilíu árið 2014 höfðum við ekki eins mikla stjórn á leiknum og í gær. Það var eitthvað sem gerðist þar en við skulum ekki tala um það, tölum um daginn í dag (gær). Þetta var sérstakt kvöld, úrslitin og hvernig við spiluðum var sérstakt. 

Það besta var að sjá leikmennina sem komu af bekknum vera með sama hugarfar og gleði og hinir. Mikilvægast er að gera það sem við viljum á vellinum og að allir geri sitt allra besta.“

Thomas Muller og Manuel Neuer eru einu leikmennirnir sem tóku bæði þátt í niðurlægingu Þýskalands á Brasilíu fyrir sex árum og Bayern á Barcelona í gær. 

Leikurinn í gær var sögulegur fyrir margar sakir. Þetta var stærsta tap Barcelona síðan árið 1951, stærsti sigur í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar, Bayern setti nýtt met yfir mörk á einu tímabili eða 155 mörk og Robert Lewandowski setti met með því að skora í áttunda leik sínum í röð í keppninni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×