Innlent

John Snorri kominn í grunnbúðir K2

Kjartan Kjartansson skrifar
Hópur Johns Snorra í tjaldi í grunnbúðum K2.
Hópur Johns Snorra í tjaldi í grunnbúðum K2. John Snorri/Facebook

Fjallgöngumaðurinn John Snorri Sigurjónsson og gönguhópur hans náði í grunnbúðir K2 í dag. John Snorri stefnir á að verða fyrsti maðurinn til að klífa tind fjallsins að vetrarlagi.

Í færslu á Facebook-síðu Johns Snorra kemur fram að hópurinn hafi komist í grunnbúðirnar eftir níu daga á Baltoro-jöklinum. Um 27 stiga frost sé í búðunum og þreyta sé í mannskapnum eftir erfiða daga. Á morgun segir John Snorri að hópurinn hvíli sig fyrir framhaldið en á föstudag standi til að hefja ferðina upp í efri grunnbúðir fjallsins. Hlutar hópsins skiptist á að gera öruggan slóða upp í efri búðirnar.

Erfiðar aðstæður torvelduðu John Snorra og félögum leiðina að grunnbúðunum. Á vefsíðu Apricot Tours í Pakistan kemur fram að sökum aðstæðna hafi leið sem átti að taka sjö klukkustundir undir venjulegum aðstæðum tekið hópinn þrjá daga. Grunnbúðirnar þar sem hópurinn hefst nú við er í tæplega fimm þúsund metra hæð yfir sjávarmáli.

Tindur K2, sem er á landamærum Kína og Pakistans, er sá annar hæsti á jörðinni á eftir Everest-fjalli, rúmlega 8.600 metrar að hæð. Enginn hefur náð að klífa tindinn að vetrarlagi. John Snorri komst á tindinn árið 2017 en þá að sumri til.


Tengdar fréttir

28 klukkutíma Esjuleiðangur John Snorra hafinn

John Snorri Sigurjónsson fjallamaður lagði af stað ásamt hópi vina og kunningja af stað í fyrstu ferð af fjórtán sem hann ætlar að labba upp Esjuna á næstu 28 klukkutímum.

Hyggst ganga á K2 að vetri til

John Snorri Sigurjónsson kleif nýverið eitt hæsta fjall heims, Manaslu í Nepal, aðeins annar Íslendinga. John segir tilfinninguna á toppnum frábæra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.