Innlent

Umfangsmiklar aðgerðir vegna gruns um kennitölusvik

Kjartan Kjartansson skrifar
Um sameiginlega aðgerð lögreglu, ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins var að ræða.
Um sameiginlega aðgerð lögreglu, ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins var að ræða. Vísir/Vilhelm

Hópur erlendra manna var færður á lögreglustöð í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu og eftirlitsstofnana vegna gruns um sviksamlegar skráningar á kennitölum í vikunni. Rannsóknin er einnig sögð beinast að vinnuveitendum mannanna og hafa þeir verið kallaðir til yfirheyrslna.

Í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér í kvöld kemur fram að alls hafi verið „höfð afskipti“ af um tuttugu manns í aðgerðum hennar, ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar fyrr í vikunni. Aðgerðirnar hafi verið þágu rannsóknar vegna grunsemda um skráningar á kennitölum í gegnum Þjóðskrá „með sviksömum hætti“.

Tæpur helmingur mannanna var færður á lögreglustöð en þeir höfðu ekki atvinnuréttindi til að starfa á Íslandi. Útlendingastofnun er sögð hafa mál þeirra til frekari meðferðar. Mennirnir eiga yfir höfði sér hugsanlega brottvísun og endurkomubann til landsins.

Þeir sem eftir voru gátu ekki gert grein fyrir sér og segist lögregla hafa þurft að ganga úr skugga um það með því að skoða persónuskilríki þeirra í framhaldinu. Það hafi tekið nokkurn tíma og kom þá í ljós að mennirnir uppfylltu tilskilin skilyrði til starfa á Íslandi. Fengu þeir að halda áfram störfum í framhaldinu.

Vinnuveitendur mannanna verða kallaðir til yfirheyrslu „til að leita frekari skýringa á tilurð málsins“, að því er segir í tilkynningu lögreglunnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.