Innlent

Tvö út­köll vegna manna sem ógnuðu veg­far­endum með hnífum í borginni

Atli Ísleifsson skrifar
Annað atvikið var í miðborg Reykjavíkur og hitt í hverfi 110.
Annað atvikið var í miðborg Reykjavíkur og hitt í hverfi 110. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborginni hefur í tvígang verið kölluð út í kvöld vegna manna sem hafa ógnað vegfarendum með hnífum.

Í dagbók lögreglu segir að skömmu fyrir klukkan 19 hafi verið tilkynnt um mann með hníf í miðbæ Reykjavíkur en hann mun hafa ógnað vegfarendum með það í huga að hafa af þeim pening. Er málið í rannsókn.

Skömmu eftir klukkan 21:30 var svo tilkynnt um tvo menn í hverfi 110, þar sem annar var með hníf og ógnaði vegfaranda. Var maðurinn handtekinn og færður í fangaklefa.

Í dagbók lögreglu segir einnig að um 20:30 hafi verið tilkynnt um mann með læti í afgreiðslu slysadeildar Landspítalans og var hann handtekinn og færður á lögreglustöð.

Um 20:45 var tilkynnt um dreng sem hafi slasast í Sundhöll Reykjavíkur og var hann með áverka á fæti.

Loks segir frá því að upp úr klukkan 21 hafi verið tilkynnt um krakka að kasta rakettum í Engidalsskóla í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×