Fótbolti

Einn af risunum í hollenskri fót­bolta­sögu er allur

Atli Ísleifsson skrifar
Rob Rensenbrink í úrslitaleik Hollands og Argentínu á HM 1978.
Rob Rensenbrink í úrslitaleik Hollands og Argentínu á HM 1978. Getty

Rob Rensenbrink, einn af risunum í hollenskri knattspyrnusögu, er látinn, 72 ára að aldri. Hollendir fjölmiðlar greina frá því að hann hafi andast á heimili sínu í gærkvöldi eftir margra ára glímu við vöðvasjúkdóm.

Resenbrink spilaði alla jafna sem vinstri kantmaður, en einnig sem framherji, og var tvívegis í silfurliði Hollendinga á HM – bæði 1974 og 1978.

Litlu munaði að Resenbrink hafi tryggt Hollendingum gullið í úrslitaleiknum 1978, en hann átti skot í stöng undir lok leiksins sem var gegn Argentínu. Þess í stað fór leikurinn í framlengingu þar sem Argentínumenn skoruðu í tvígang og tryggðu sér gullið.

Rensenbrink spilaði lengi í belgísku deildinni þar sem hann spilaði lengst af með Anderlecht. Árið 1976 var hann útnefndur besti leikmaður belgísku deildarinnar þar sem hann vann auk þess Evrópukeppni bikarhafa með liði sínu og var annar í kjörinu um Ballon d‘Or. Laut hann þar í grasi fyrir þýsku goðsögninni Franz Beckenbauer.

Alls spilaði Rob Rensenbrink 46 landsleiki fyrir Holland og skoraði í þeim fjórtán mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×