Erlent

Tala látinna nú minnst 35 í Tyrklandi

Eiður Þór Árnason skrifar
Öflugir jarðskjálftar eru nokkuð algengir í Tyrklandi. Árið 1999 fórust 17.000 manns í skjálfta sem reið yfir borgina Izmit.
Öflugir jarðskjálftar eru nokkuð algengir í Tyrklandi. Árið 1999 fórust 17.000 manns í skjálfta sem reið yfir borgina Izmit. Vísir/AP

Minnst 35 eru nú sögð látin eftir jarðskjálftann sem reið yfir Tyrkland á föstudag samkvæmt upplýsingum frá tyrkneskum yfirvöldum.

Nú er talið er að yfir 1.600 manns hafi slasast í skjálftanum sem mældist 6,8 að stærð en Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti greindi fjölmiðlum frá því í dag að 45 hafi verið bjargað úr rústum bygginga.

Hamfarirnar ollu mikilli eyðileggingu í bænum Sivrice þar sem byggingar hrundu og íbúar flúðu út á götur.

Fólks er enn saknað á svæðinu og hafa yfir 3.500 björgunaraðilar unnið sleitulaust síðustu sólarhringa við mjög erfiðar aðstæður. Næturfrost hefur verið á svæðinu og hafa viðbragðsaðilar sett upp yfir 9.500 tjöld og dreift 17 þúsund heitum máltíðum.

Talið er að 76 byggingar hafi eyðilagst í skjálftanum og þar að auki séu yfir eitt þúsund skemmdar.

Svæðið sem um ræðir er um 550 kílómetra austur af höfuðborginni Ankara. Um 4000 manns búa í bænum Sivrice sem er vinsæll ferðamannastaður við Hazar-vatn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.