Innlent

Tæp 96 prósent sam­þykktu verk­falls­að­gerðir Eflingar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Vísir/Vilhelm

Yfirgnæfandi meirihluti, eða 95,5 prósent, greiddi atkvæði með verkfallsboðun Eflingar hjá starfsfólki Reykjavíkurborgar. Kjörsókn var rétt tæp 60 prósent. Aðgerðir hefjast að óbreyttu 4. febrúar.

Rúmlega 1800 manns voru á kjörskrá og stóð atkvæðagreiðslan yfir í fimm daga. Henni lauk á hádegi í dag, sunnudaginn 26. janúar. Með atkvæðagreiðslunni hafa félagsmenn Eflingar samþykkt verkfallsboðun gagnvart Reykjavíkurborg. Formleg verkfallsboðun verður afhent borgaryfirvöldum og ríkissáttasemjara fyrir hádegi á morgun, mánudaginn 27. janúar.

Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að lægstu laun hækki um rúmlega 140 þúsund krónur á mánuði á samningstímanum, það er til loka árs 2022.

Sjá einnig: Krefjast þess að lægstu laun hjá borginni hækki um 142.507 krónur á mánuði

Í tilkynningu frá Eflingu segir að metþátttaka hafi verið í atkvæðagreiðslunni, eða 59,2 prósent. Alls voru 34 á móti, eða 3,1 prósent, og 16 tóku ekki afstöðu eða 1,4%.

Haft er eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningu að hún fagni því að félagsmenn hafi tekið undir tillögu samninganefndar um boðun verkfallsaðgerða.

„Ég hef fundið fyrir gríðarlegum baráttuvilja meðal starfsmanna í fjölmörgum heimsóknum mínum á vinnustaði borgarinnar síðan í haust. Fólk er orðið langþreytt á því að vinna fyrir sultarlaunum við vaxandi álag og erfiðar aðstæður. Metkosningaþátttaka, svo ekki sé talað um yfirgnæfandi vilja til aðgerða, sýnir svo ekki verður um villst að við erum á réttri leið og höfum fjöldann á bakvið okkur. Með þennan vind í seglunum eru okkur allir vegir færir í baráttunni við borgina,“ segir Sólveig Anna í tilkynningu. 

Verkfallið nær m.a. til leikskólastarfsfólks og starfsfólks á hjúkrunarheimilum og í heimaþjónustu. Skipulag verkfallsaðgerða verður með eftirfarandi hætti:

  • Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
  • Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
  • Þriðjudagur 11. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
  • Miðvikudagur 12. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
  • Fimmtudagur 13. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
  • Mánudagur 17. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og ótímabundið eftir það.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Efling vill ræða beint við borgar­stjóra

Sólveig Anna Jónsdóttir hefur tilkynnt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að Efling muni ekki eiga frekari viðræður við samninganefnd borgarinnar umfram það sem lög krefjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×