Innlent

Al­manna­varna­kerfið sam­ræmir við­bragð vegna ó­vissu­stigsins

Sylvía Hall skrifar
Þau Davíð Már hjá Landsbjörg og Brynhildur Bolladóttir hjá Rauða krossinum segja alla fylgjast vel með stöðu mála.
Þau Davíð Már hjá Landsbjörg og Brynhildur Bolladóttir hjá Rauða krossinum segja alla fylgjast vel með stöðu mála. Vísir/Vilhelm/Rauði Krossinn

Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna mögulegrar kvikusöfnunar við fjallið Þorbjörn. Nokkuð landris hefur mælst þar síðustu daga og hefur jarðskjálftahrina verið á svæðinu. Sérfræðingar hafa fundað í dag þar sem farið er yfir mögulegar sviðsmyndir og þá hefur almannavarnakerfið farið yfir sína verkferla.

Á meðal þeirra sem hafa farið yfir verkferla sína vegna óvissustigsins er Rauði kross Íslands. Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir starfsfólk undirbúið ef eitthvað gerist.

„Þetta gæti gerst einhvern tímann eða aldrei. Það er allavega búið að yfirfara verkferla og framkvæmdir á þessu,“ segir Brynhildur í samtali við Vísi.

„Við erum með í öllum plönum að fara yfir sviðsmyndirnar og hvað gæti þurft. Við erum bara í viðbragðsstöðu eins og allir aðrir.“

Frá Grindavík. Þorbjörn sést í bakgrunni.Vísir/Vilhelm

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá slysavarnafélaginu Landsbjörg, tekur í sama streng og Brynhildur. Dagurinn í dag hafi farið í að fara yfir helstu verkferla og safna saman upplýsingum.

„Við erum hluti af þessu almannavarnakerfi. Það hefur verið virkjað fólk í dag sem hefur verið að vinna að þessum verkefnum sem hafa verið unnin, sem snúa aðallega að því að safna upplýsingum og meta stöðuna, yfirfara áætlanir og gera áætlanir,“ segir Davíð í samtali við Vísi. Að öðru leyti hafi ekki verið virkjað neitt viðbragð.

„Dagurinn í dag hefur að mestu snúist um að fara yfir þær áætlanir sem eru til staðar ef til einhvers viðbragðs kæmi.“

Hann segir óvissustigið fela það í sér að betur sé fylgst með stöðu mála og allar áætlanir séu klárar. Það sé búið að slípa til viðbragð almannavarnakerfisins í heild sinni en að öðru leyti séu björgunarsveitirnar viðbúnar líkt og alltaf.

„Eins og vísindamennirnir segja þá er ekki yfirvofandi eldgos en það eru auknar líkur á því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×