Innlent

Versta sviðs­mynd gerir ráð fyrir hraun­gosi sem yrði þó minna en Holu­hraun

Sylvía Hall skrifar
Magnús Tumi Guðmundsson.
Magnús Tumi Guðmundsson. Vísir

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir líklegast að landrisið rétt fyrir vestan Þorbjörn stafi af kvikuhreyfingum. Ekki sé hægt að útilokað annað á þessu stigi málsins en í versta falli yrði hraungos sem yrði þó töluvert minna en gosið í Holuhrauni og Eyjafjallajökli.

„Fyrir fimm dögum byrjar landris. Þetta er mjög hratt landsris. Það er með miðju rétt fyrir vestan Þorbjörn þarna við Svartsengi og er búið að rísa um tvo sentimetra,“ sagði Magnús Tumi í Kvöldfréttum Stöðvar 2.

Sjá einnig: Óvissustigi lýst yfir vegna mögulegrar kvikusöfnunar við fjallið Þorbjörn

Að sögn Magnúsar er líklegt að landrisið hætti áður en eitthvað meira gerist ef um er að ræða landris vegna kvikuinnskots. Þó gæti myndast gangur sem gæti valdið skemmdum á vegum, lögnum og öðrum innviðum.

Hann segir versta tilfellið vera ef það yrði eldgos á sprungu sem gæti þá orðið allt að tíu kílómetrar að lengd. Miðað við undanfarin árþúsund yrði um hraungos að ræða. Það yrði þó töluvert minna gos en í Holuhrauni og ekki sambærilegt gosum í Kötlu og Eyjafjallajökli.

Ekki sé hægt að útiloka það að landlyftingin framkalli stærri jarðskjálfta á svæðinu en hafa verið undanfarna áratugi að sögn Magnúsar. Þó það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af húsum sé tilefni til þess að hafa varann á þar sem landrisið sé nálægt byggð og mannvirkjum.

Rögnvaldur Ólafsson aðalvarðstjóri segir rýmingaráætlanir hafa verið skoðaðar og farið hafi verið yfir verkferla í dag. Boðað hefur verið til íbúafundar á morgun þar sem farið verður yfir stöðuna en tæplega 3500 manns búa í Grindavík. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×