Innlent

Áframhaldandi starfsemi Lýðskólans á Flateyri verði tryggð

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Flateyri við Önundarfjörð.
Flateyri við Önundarfjörð. Vísir/Egill

Áframhaldandi starfsemi Lýðskólans á Flateyri verður tryggð og gert er ráð fyrir fjármagni til reksturs lýðskóla í landinu í fjármálaáætlun. Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, en hún var spurð í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi hvort það stæði til að semja um áframhaldandi rekstur Lýðskólans á Flateyri.

„Nú er það svo að í fyrsta sinn er búið að setja lög um lýðskóla á Íslandi. Það var gert hjá þessari ríkisstjórn vegna þess að þessi ríkisstjórn hún hefur trú á þeirri hugmyndafræði sem lýðskólar standa fyrir og það er ljóst að áhugi á lýðskólum og hann hefur verið talsverður á Íslandi síðustu 100 árin,“ sagði Lilja er hún svaraði fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar. Þá sé gert ráð fyrir töluverðum fjármunum í ríkisfjármálaáætlun til starfsemi lýðskóla.

„Ég hef átt samtal við skólastjórann í Lýðskólunum á Flateyri og sagt henni að það sé ljóst að framtíð skólans sé tryggð. Meðan eru nemendur sem hafa áhuga á því að læra og skólinn er vel starfræktur þá að sjálfsögðu munum við styðja við bakið á lýðskólunum á Flateyri,“ sagði Lilja.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Vísir/vilhelm

Þessi svör þóttu Þorgerði Katrínu ekki fullnægjandi svo hún spurði aftur. „Ég saknaði þess í máli ráðherra að við fáum ekki hér skýrt hvort það verði samið við lýðskólann eða ekki. Það er gott að öryggi verði tryggt en hvað þýðir það? Þýðir það til eins árs, þýðir það til tveggja ára, þriggja ára. Hvaða fjárhæðir verða, verður samið? Þetta er einföld spurning: Verður samið núna á allra næstu dögum við lýðskólann til að eyða óvissu?“ sagði Þorgerður Katrín.

Ráðherra svaraði á þá leið að það kæmi henni á óvart að Þorgerður Katrín hafi ekki meðtekið upplýsingarnar. „Það er alveg ljóst í samtölum sem ráðherrann, og ég hef sem sagt sem ráðherra, átt við skólastjórnendur og Flateyri þá hef ég gefið þeim fullvissu mína fyrir því að það verði samið,“ sagði Lilja.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Vísir/Vilhelm


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.