Innlent

Uppruni botúlisma-eitrunar enn á huldu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Karlmaður á fimmtugsaldri var lagður inn á sjúkrahús með botúlisma-eitrun
Karlmaður á fimmtugsaldri var lagður inn á sjúkrahús með botúlisma-eitrun Vísir/Vilhelm

Niðurstöður úr matvælasýnum sem voru tekin til rannsóknar vegna bótulisma eitrunar sem greindist í fullorðnum karlmanni síðustu viku liggja fyrir. Eitrunina var ekki hægt að rekja til þeirra matvæla.

Í tilkynningu á vef Matvælastofnunar segir að fulltrúar frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra hafi tekið sýni af matvælum á heimili mannsins sem veiktist.

Fulltrúi sóttvarnarlæknis fór yfir neyslusögu með aðstandendum og á grundvelli hennar voru þrjú sýni af matvælum send til greininga á rannsóknastofu erlendis.

Niðurstöðurnar sýna að matvælin sem send voru í rannsókn voru ekki orsök eitrunar af völdum Clostridium botulinum. Frekari rannsóknir á orsökum eitrunarinnar eru ekki fyrirhugaðar.

Uppruni eitrunarinnar er því óþekktur. Fleiri tilfelli hafa ekki greinst.

Bótulismi er eitrun af völdum Clostridium botulinum, sem er grómyndandi, loftfælin baktería. Bakterían getur myndað mjög öflugt eitur (botulinum toxin) og ef hún nær að vaxa í matvælum veldur hún alvarlegum veikindum með lömunum sem leitt geta til dauða, að því er segir á vef Landlæknis.

Algengustu orsakir bótúlisma eru heimalöguð matvæli eins og kjöt, fiskur, grænmeti og ávextir, sem eru oftast niðursoðin, grafin, súrsuð eða gerjuð og gjarnan í lofttæmdum umbúðum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.