Innlent

„Það liggur við að það væri fljótlegra að telja upp þá sem ekki væru í burtu“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. Vísir/Vilhelm

Á mánudaginn tóku alls ellefu varamenn sæti á Alþingi. Þykir það þónokkur fjöldi sem tekur sæti í einni og sömu vikunni en þetta er meðal annars til komið vegna þess að fjöldi þingmanna er staddur erlendis í opinberum erindagjörðum en margir þingmanna sækja ýmist þingfund Evrópuráðsþingsins, þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins eða fundi á vettvangi Norðurlandaráðs.

Við upphaf þingfundar í gær sló Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, á létta strengi þegar hann las upp alla þá þingmenn sem voru fjarverandi og eftir atvikum hvaða varaþingmenn tækju sæti á þingi í fjarveru þeirra. „Það liggur við að það væri fljótlegra að telja upp þá sem ekki væru í burtu,“ sagði Steingrímur og uppskar létt hlátrasköll í þingsalnum.

Allir þessara ellefu varaþingmanna hafa tekið sæti á Alþingi áður fyrir utan einn en það er Eydís Blöndal, varaþingmaður Vinstri grænna, sem undirritaði drengskaparheit að stjórnarskránni við upphaf þingfundar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×