Erlent

Samtök kvikmyndagagnrýnenda verðlaunuðu Hildi Guðnadóttur

Birgir Olgeirsson skrifar
Hildur Guðnadóttir hefur gert það gott síðustu misseri.
Hildur Guðnadóttir hefur gert það gott síðustu misseri. Ap/richard shotwell

Hildur Guðnadóttir hreppti verðlaun samtaka kvikmyndagagnrýnenda í Bandaríkjunum í nótt fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker. Verðlaunin í nótt voru þau sjöttu sem Hildur hefur hlotið fyrir tónlistina í Joker en áður hafði hún verið verðlaunuð á Golden Globe-hátíðinni og er tilnefnd til BAFTA-verðlaunanna.

Síðar í dag verða tilnefningar til Óskarsverðlauna kunngjörðar en teljast verður afar líklegt að hún hljóti tilnefningu miðað við velgengnina á öðrum verðlaunahátíðum.

Hildur er einnig tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl en áður hafði hún hlotið Emmy-verðlaunin fyrir þá tónlist.

Aðalstef myndarinnar er leikið á selló, sem er aðalhljóðfæri Hildar, en leikstjóri myndarinnar, Todd Phillips, hefur lýst því hvernig sellóleikur Hildar hjálpaði þeim að skapa eina eftirminnilegustu senu myndarinnar.

Um er að ræða senu þar sem Arthur Fleck, sem síðar verður hið alræmda illmenni Jokerinn, stígur dans á baðherbergi eftir að hafa myrt nokkra í neðanjarðarlest.

Phillips sagði frá vandræðunum sem hann og aðalleikari myndarinnar Joaquin Phoenix stóðu frammi fyrir þegar taka átti upp senuna á baðherberginu. Phoenix hafði stungið upp á að karakterinn hans myndi stíga dans. Það var þá sem Phillips leyfði honum að heyra sellóverkið sem Hildur hafði samið fyrir myndina.

Verkið greip Phoenix samstundis sem hreyfði sig út frá tónlist Hildar.

Hildur hefur sjálf greint frá því að Phoenix hefði tjáð henni að þegar hann heyrði verkið hennar þá hefði hann fyrst náð að komast að kjarna Jokersins.

„Hann komst inn í hugarheim hans með hjálp tónlistarinnar. Það sést að hann hreyfir sig í takt við verkið. Við hlustuðum á það með honum í myndinni. Þetta var fyrsta senan sem ég fékk að sjá úr myndinni. Það var töfrum líkast að sjá að hann upplifði í raun sömu hreyfingar og ég upplifði þegar ég samdi verkið,“ sagði Hildur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.