Erlent

Stefnir í að Mishustin verði næsti for­sætis­ráð­herra Rúss­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Mikhail Mishustin á fundi í morgun.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Mikhail Mishustin á fundi í morgun. Getty

Sameinað Rússland, stjórnarflokkur Rússlands, hefur samþykkt einróma framboð Mikhail Mishustin sem næsti forsætisráðherra landsins.

Dúman, neðri deild rússneska þingsins, mun formlega greiða atkvæði um nýjan forsætisráðherra síðar í dag, en Sameinað Rússland er þar með hreinan meirihluta. Reuters greinir frá þessu.

Hinn 53 ára Mishustin hefur verið yfirmaður skattayfirvalda í Rússlandi frá árinu 2010.

Mikhail Mishustin.Getty

Dimitri Medvedev forsætisráðherra baðst lausnar fyrir ríkisstjórn sína í gær. Sagðist Medvedev vilja með þessu gefa Vladimír Pútín forseta það svigrúm sem hann þarf til að gera umfangsmiklar breytingar á stjórnarskrá landsins. Hefur forsetinn lagt til að breytingar í þá veru verði gerðar að völd forsetaembættisins yrðu færð til þingsins og annarra stofnanna.

Anastasia Kashevarova, aðstoðarkona forseta rússneska þingsins, staðfesti ákvörðun Sameinaðs Rússlands á samfélagsmiðlum í morgun.

Greinendur hafa talið að með tillögum sínum sé Pútín að búa þannig um hnútana að hann geti áfram stýrt landinu eftir að hann lætur af embætti forseta árið 2024. Stjórnarskrá landsins gerir nú ráð fyrir að hann geti ekki setið áfram sem forseti lengur en það.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórn Rússlands segir af sér

Dimitry Medvedev, forsætisráðherra, segist vilja veita Vladimir Pútín, forseta, svigrúm til að gera umfangsmiklar breytingar á stjórnarskrá Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×