Innlent

Aðalmeðferð í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar

Kristín Ólafsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa

Aðalmeðferð í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þrír eru ákærðir í málinu fyrir að hafa reynt að smygla sextán kílóum af sterku kókaíni til landsins í maí í fyrra.

Sjá einnig: Sextán kíló af kókaíni, milljónir í reiðufé en allir neita sök

Lögregla hefur aldrei lagt hald á meira magn af efninu í einu lagi. Tveir ákærðu, sem eru fæddir árin 1996 og 1998, voru handteknir við komuna til Keflavíkur frá Frankfurt, en sá þriðji skömmu síðar.

Frá Frankfurt til Amsterdam og aftur til Frankfurt

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í september í fyrra og neituðu allir ákærðu sök. Í ákæru á hendur mönnunum segir að tveir þeirra hafi  flogið til Frankfurt í Þýskalandi þann 10. maí síðastliðinn þaðan sem þeir tóku lest áfram til Amsterdam í Hollandi.

Í Amsterdam hafi þeir hitt tvo óþekkta aðila og tóku hver á móti sinni ferðatöskunni. Í töskunum voru fíkniefnin falin undir fölskum botni, rúm átta kíló í annarri og tæp átta kíló í hinni. Styrkleiki efnanna er sagður mjög mikill eða um og yfir 80 prósent.

Eftir að hafa verið í Amsterdam tóku þeir lest aftur til Frankfurt þar sem þeir innrituðu töskurnar með fíkniefnunum í flug til Keflavíkur daginn eftir. Yfirvöld á flugvellinum í Frankfurt fundu fíkniefnin í ferðatösku hjá öðrum þeirra og yfirvöld á Keflavíkurflugvelli í tösku hins. Báðir voru handteknir við komuna til landsins á Keflavíkurflugvelli þann 12. maí.

Sá þriðji sem ákærður er í málinu er sagður hafa fengið hina tvo til að flytja inn fíkniefnin, látið þeim í té fé til að kaupa flugmiðana, reiðufé til að kaupa gistingu og gefið þeim fyrirmæli.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er enginn þeirra með neinn brotaferil á bakinu en ljóst að þeir eiga yfir höfði sér þungan dóm verði þeir fundnir sekir.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.