Fótbolti

Håland kom inn á sem vara­maður í frum­rauninni hjá Dort­mund og gerði þrennu á 20 mínútum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Norðmaðurinn fagnar marki í dag.
Norðmaðurinn fagnar marki í dag. vísir/getty

Erling Braut Håland heldur áfram að slá í gegn í Evrópuboltanum en hann lék sinn fyrsta leik fyrir Dortmund eftir skiptin frá Salzburg.

Dortmund festi kaup á Norðmanninum undir lok desember en þýski boltinn fór aftur af stað eftir jólafrí. Håland byrjaði á bekknum.

Florian Niederlechner og Marco Richter komu Augsburg í 2-0 áður en Julian Brandt minnkaði muninn. Sex mínútum síðar kom Florian Niederlechner Augsburg aftur í tveggja marka forystu.

Þá kallaði þjálfari Dortmund, Lucien Favre, á Norðmanninn sem var búinn að minnka muninn þremur mínútum eftir að hafa komið inn á.







Jadon Sancho jafnaði metin á 61. mínútu og Håland bætti svo við tveimur mörkum; einu á 70. mínútu og fullkomnaði þrennuna svo á 79. mínútu.

Algjörlega mögnuð byrjun hjá honum í Þýskalandi en Dortmund er í 4. sæti deildarinnar með 33 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Leipzig.

Alfreð Finnbogason er að komast aftur af stað eftir meiðsli og var því ekki með Augsburg sem er í 10. sæti deildarinnar.







Önnur úrslit dagsins:

FC Köln - Wolfsburg 3-1

Mainz 05 - Freiburg 1-2

Augsburg - Dortmund 3-5

Fortuna Dusseldorf - Werder Bremen 0-1

Hoffenheim - Eintracht Frankfurt 1-2

17.30 Leipzig - FC Union Berlin




Fleiri fréttir

Sjá meira


×