Innlent

Lögreglan á Norðurlandi vestra sjálfbær

Jakob Bjarnar skrifar
Gunnar Örn. Annað árið í röð er lögreglan á Norðurlandi vestra sjálfbær en þar er verið að leggja á meiri sektir en sem nemur ríkisframlagi.
Gunnar Örn. Annað árið í röð er lögreglan á Norðurlandi vestra sjálfbær en þar er verið að leggja á meiri sektir en sem nemur ríkisframlagi.

Gunnar Örn Jónsson lögreglustjóri á Norðurlandi vestra er harla ánægður með 2019 og starf lögreglunnar á því herrans ári.

„Liðið ár gekk mjög vel. Við náðum að halda sjó eftir hina gríðarlegu aukningu sem varð hér í málafjölda 2018, það er mikill  áfangi,“ segir lögreglustjórinn.

Hann segir að þeim hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra hafi tekist að halda úti miklu og öflugu eftirliti alla mánuði ársins, sem skilar sér í færri slysum og öruggari umferð.

„Við erum að taka saman slysatölur en bráðabirgðaniðurstöður eru þær að slysatíðni hér sé áfram á niðurleið og haldi að minnsta kosti sjó frá því í fyrra, en þá fækkaði umferðarslysum hér á milli ára um 26 prósent.“

Bráðabirgðatalna um afbrot er að vænta en þær munu sýna að hegningarlagabrotum hafi fækkað um 10,4 prósent á milli ára.

„Við erum þar lægst á landinu. Annað árið í röð erum við sjálfbær, við erum að leggja á meiri sektir en sem nemur ríkisframlagi, það eitt og sér er merkilegt, en þó er það að ótöldum þeim gríðarlega fjárhagslega ávinningi sem 26 prósenta fækkun umferðarslysa er fyrir samfélagið í heild sinni.“

Gunnar Örn segir þetta sýna svart á hvítu að aukin frumkvæðislöggæsla og aukin sýnileiki á lögreglu er einfaldlega að virka, jafnt til afbrotaforvarna og varðandi umferðaröryggi. Hann segist stoltur af sínu lögregluliði og að þar sé til staðar mikill slagkraftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×