Innlent

Gjaldskrá Strætó hækkar á morgun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gjaldskráin tekur gildi á morgun.
Gjaldskráin tekur gildi á morgun. Vísir/Vilhelm

Á morgun, 5. janúar, tekur gildi ný gjaldskrá Strætó bs. Gjaldskráin var samþykkt á fundi stjórnar félagsins í nóvember á síðasta ári og nemur breytingin um 2,3 prósenta hækkun að meðallagi. Á vef Strætó er hækkunin sögð í takt við almenna verðlagsþróun.

Almennt staðgreiðslugjald og stakt fargjald í Strætó-appinu mun þannig hækka í 480 krónur og afsláttarstaðgreiðslugjald hækkar þá um fimm krónur og verður 240 krónur.

Eins mun 24 klukkustunda dagpassi hækka um 100 krónur og mun því kosta 1900 krónur eftir að hin nýja gjaldskrá tekur gildi.

Þá hafa einnig verið gerðar breytingar á tímatöflu leiðar 13, auk þess sem vagni verður bætt við þá leið.

Aukinn akstur inn í Reykjanesbæ

Þá taka nýjar akstursleiðir í Reykjanesbæ gildi á mánudaginn, þann 6. janúar. Helstu breytingar á akstri eru þær að akstur hefst fyrr og vagnar aka lengur á virkum dögum. Eins verður ferðum á laugardögum fjölgað og reynsla gerð á sunnudagsakstri innanbæjarstrætó.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um breytingarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×