Innlent

Hægt verði að greina 5000 sýni á dag eftir helgi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir Sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir Sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans Arnar Halldórsson

Vonir standa til að hægt verði að greina umtalsvert fleiri kórónuveirupróf á næstunni. Með flutningi hluta af starfsemi sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans í höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar er talið að afkastagetan muni aukast úr 2000 sýnum á dag upp í 5000 dagleg sýni.

Þetta kom fram í máli Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þrátt fyrir að núverandi greiningargeta hafi miðast við 2000 sýni á dag hefur þurft að sinna umtalsvert fleiri sýnum á síðustu dögum. Þannig hafa sýnin oft verið fleiri en 2500 undanfarnar vikur og hátt í 3000 síðustu tvo daga.

Karl sagði ljóst að þrátt fyrir dugnað og útsjónarsemi starfsfólks, þannig að hægt væri að greina öll sýnin, væri ljóst að þetta gangi ekki til lengdar. Því sé sýkla- og veirufræðideildin þakklát Íslenskri erfðagreiningu fyrir að hlaupa undir bagga með sér.

Fyrirtækið og deildin hafi nú ákveðið að snúa bökum saman til að auka afkastagetuna frekar. Það verði gert með því að flytja hluta af starfsemi sýkla- og veirufræðideildarinnar í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýri. Verið sé að undirbúa flutninginn og standa vonir til að hægt verði að ráðast í hann í upphafi næstu viku.

Við það muni greiningargetan aukast „mjög mikið“ að sögn Karls. Tækjabúnaður Íslenskrar erfðagreiningar er talinn geta afkastað um 5000 sýnum á dag, sem er um 150 prósent aukninga frá núverandi getu.


Tengdar fréttir

Kominn úr öndunarvél

Sá einstaklingur sem hefur verið inniliggjandi á gjörgæslu Landspítalans með kórónuveirusmit er laus úr öndunarvél.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×