Fótbolti

Leikur Celtic og KR verður sýndur beint á Stöð 2 Sport

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, í leik á móti Val í Pepsi Max deildinni í sumar.
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, í leik á móti Val í Pepsi Max deildinni í sumar. Vísir/Daníel Þór

Einvígi íslensku og skosku meistaranna í forkeppni Meistaradeildar Evrópu verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í næstu viku.

Íslandsmeistarar KR lentu á móti Skotlandsmeisturum Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar og fer leikurinn fram á Celtic Park á næsta þriðjudagskvöld.

Sýn hefur nú tryggt sér sýningarréttinn að leik Celtic og KR og verður hann í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Leikurinn fer fram fyrir luktum dyrum á Celtic Park klukkan 18.45 að íslenskum tíma 18. ágúst næstkomandi.

Sigurvegarinn úr leiknum kemst áfram í aðra umferð forkeppninnar þar sem mótherjinn verður annað hvort Ferencváros frá Ungverjalandi eða Djurgården frá Svíþjóð.

KR varð Íslandsmeistari í 27. sinn síðasta sumar en Celtic vann skoska meistaratitilinn í 51. skiptið.

KR er að taka þátt í forkeppni Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn síðan sumarið 2014 en þá lenti liðið einnig á móti Celtic. Celtic vann þá fyrri leikinn 1-0 á KR-vellinum og svo þann síðari 4-0 í Skotlandi.

Mörk Celtic-liðsins í seinni leiknum skoruðu þeir Virgil van Dijk og Teemu Pukki sem báðir voru með tvennu. Þeir hafa síðan báðir fært sig yfir í ensku úrvalsdeildina með mjög góðum árangri, Van Dijk er nú hjá Englandsmeisturum Liverpool og Pukki fór á kostum með Norwich framan af tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×