Fótbolti

Neymar valinn maður leiksins en gaf hetju PSG verðlaunagripinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eric Maxim Choupo-Moting með verðlaunagripinn sem Neymar færði honum.
Eric Maxim Choupo-Moting með verðlaunagripinn sem Neymar færði honum. getty/Michael Regan

Neymar var valinn maður leiksins þegar Paris Saint-Germain vann mjög svo dramatískan sigur á Atalanta, 1-2, í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Brasilíumaðurinn lagði jöfnunarmark PSG upp fyrir landa sinn, Marquinhos, og átti svo stóran þátt í sigurmarkinu sem varamaðurinn Eric Maxim Choupo-Moting skoraði á 93. mínútu.

Neymar var að vonum ánægður með Choupo-Moting og gaf honum verðlaunagripinn sem hann fékk fyrir að vera valinn maður leiksins.

Neymar átti frábæran leik í kvöld og var hættulegasti leikmaður PSG. Hann fór reyndar illa með tvö góð færi í fyrri hálfleik en það kom ekki að sök.

Neymar lék sextán sinnum á leikmenn Atalanta í leiknum sem er það mesta sem leikmaður í Meistaradeildinni hefur gert síðan 2008. Lionel Messi átti þá sextán einleiki þegar Barcelona tapaði 1-0 fyrir Manchester United í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

PSG mætir annað hvort Atlético Madrid eða RB Leipzig í undanúrslitum Meistaradeildarinnar 18. ágúst.

Þetta er í fyrsta sinn frá tímabilinu 1994-95 sem PSG kemst í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Þá tapaði liðið fyrir AC Milan, 3-0 samanlagt.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.