Fótbolti

Atletico Madrid nafngreinir leikmennina sem smituðust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Correa sést hér með Diego Costa á æfingu liðsins fyrir aðeins fimm dögum síðan.
Angel Correa sést hér með Diego Costa á æfingu liðsins fyrir aðeins fimm dögum síðan. EPA-EFE/ATLETICO MADRID

Atletico Madrid fer til Lissabon á morgun þrátt fyrir að tveir leikmenn félagsins séu smitaðir af kórónuveirunni.

Í gær komu fréttir af því að tveir leikmenn spænska liðsins Atletico Madrid séu með kórónuveiruna þegar aðeins nokkrar dagar eru í leik liðsins í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Atletico Madrid hefur nú staðfest að leikmennirnir séu þeir Ángel Correa og Sime Vrsaljko. Þeir fara ekki með til Lissabon þar sem leikurinn á móti RB Leipzig fer fram.

Ángel Correa er 25 ára argentínskur vængmaður. Hann hefur skorað 7 mörk í 44 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu. Ángel Correa var í byrjunarliðinu í báðum leikjunum á móti Liverpool í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Sime Vrsaljko er 28 ára króatískur bakvörður. Hann hefur bara spilað 7 leiki í öllum keppnum á tímabilinu en kom við sögu í báðum leikjunum á móti Liverpool. Vrsaljko spilaði allan fyrri leikinn og kom inn á sem varamaður undir lok framlengingarinnar í þeim síðari.

Leikur RB Leipzig og Atlético Madrid fer fram fimmtudaginn 13. ágúst og verður spilaður á Estádio José Alvalade í Lissabon. Leikurinn hefst klukkan 19.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×