Fótbolti

Atletico Madrid nafngreinir leikmennina sem smituðust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Correa sést hér með Diego Costa á æfingu liðsins fyrir aðeins fimm dögum síðan.
Angel Correa sést hér með Diego Costa á æfingu liðsins fyrir aðeins fimm dögum síðan. EPA-EFE/ATLETICO MADRID

Atletico Madrid fer til Lissabon á morgun þrátt fyrir að tveir leikmenn félagsins séu smitaðir af kórónuveirunni.

Í gær komu fréttir af því að tveir leikmenn spænska liðsins Atletico Madrid séu með kórónuveiruna þegar aðeins nokkrar dagar eru í leik liðsins í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Atletico Madrid hefur nú staðfest að leikmennirnir séu þeir Ángel Correa og Sime Vrsaljko. Þeir fara ekki með til Lissabon þar sem leikurinn á móti RB Leipzig fer fram.

Ángel Correa er 25 ára argentínskur vængmaður. Hann hefur skorað 7 mörk í 44 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu. Ángel Correa var í byrjunarliðinu í báðum leikjunum á móti Liverpool í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Sime Vrsaljko er 28 ára króatískur bakvörður. Hann hefur bara spilað 7 leiki í öllum keppnum á tímabilinu en kom við sögu í báðum leikjunum á móti Liverpool. Vrsaljko spilaði allan fyrri leikinn og kom inn á sem varamaður undir lok framlengingarinnar í þeim síðari.

Leikur RB Leipzig og Atlético Madrid fer fram fimmtudaginn 13. ágúst og verður spilaður á Estádio José Alvalade í Lissabon. Leikurinn hefst klukkan 19.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.